Sylvía Rún Guðnýjardóttir söngkona í Grundarfirði. Ljósm. tfk.

Flutti heim og kennir söng í Stykkishólmi

Sylvía Rún Guðnýjardóttir flutti aftur heim til Grundarfjarðar síðastliðið sumar og kennir nú söng við Tónlistarskólann í Stykkishólmi og stefnir á að bjóða upp á námskeið í Grundarfirði. Sylvía er fædd og uppalin í Grundarfirði en flutti þaðan til Reykjavíkur þar sem hún hefur búið undanfarin ár. Sylvía hefur alltaf verið syngjandi en fór að syngja af meiri alvöru þegar hún var ellefu ára gömul. Þá fór hún að syngja í brúðkaupum og við aðra viðburði og hefur ekki hætt síðan. Hún stóð fyrir söngkeppni á bæjarhátíðinni Á góðri stund í Grundarfirði þegar hún var 18 ára og tók þátt í Idol keppninni árið 2009. „Það má alveg segja að ég hafi alltaf ætlað mér að verða söngkona en það var líka draumur að vera söngkennari. Þegar ég hélt söngkeppnir í nokkur ár með mömmu minni Á góðri stund í Grundarfirði var þetta ekkert keppni sem krakkarnir skráðu sig í og mættu svo upp á svið til að keppa. Keppendur komu heim til mín á æfingar. Mér hefur alltaf þótt gaman að kenna og koma minni þekkingu til annara,“ segir Sylvía og hlær.

Rætt er við Sylvíu Rún í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir