Bikarleikurinn fer fram á Reynisvelli á Hellissandi. Ljósm. þa.

Heimildamynd verður gerð um bikarleik Reynis á Hellissandi í vor

Bikarkeppni KSÍ hefst í byrjun apríl og eru flest lið komin á fullt að undirbúa sig fyrir keppnina sem og tímabilið. Að þessu sinni sendir Reynir Hellissandi lið til þátttöku í bikarkeppninni en Reynir dróst gegn Aftureldingu sem spilar í 1. deildinni í sumar. Heimildamynd verður gerð um þátttöku liðsins í bikarkeppninni. Það er heimamaðurinn Kári Viðarsson sem stendur fyrir því ævintýri sem framundan er hjá Reynismönnum. Það var faðir hans, Viðar Gylfason, sem á sínum tíma var í fararbroddi við að gera grasvöllinn á Hellissandi fyrir réttum aldarfjórðungi síðan. Setti Viðar saman lið í bikarkeppnina árið 1996 til að geta vígt völlinn með bikarleik. Það gekk því miður ekki eftir þar sem fyrsti leikur Reynis var útileikur gegn GG og tapaðist 10-0. Þó flestir leikmenn liðsins hafi ekki spilað mikinn keppnisbolta undanfarið verða þeir allir klárir í leikinn í vor enda er það ungmennafélagsandinn sem er við lýði þar og mestu máli skiptir að hjartað sé á réttum stað.

Kári Viðarsson var ánægður með að Reynir hefði dregist á móti sterkum mótherja þótt draumamótherjinn hefði að sjálfsögðu verið Víkingur Ó. Sagði hann í samtali við fréttaritara Skessuhorns að völlurinn yrði tilbúinn þegar til kæmi enda væri garðyrkjumaður einn liðsmanna og myndi sá nostra við völlinn ef á þyrfti að halda. Strákarnir í Reyni setja stefnuna auðvitað á sigur og ætla að gera Aftureldingu erfitt fyrir. Þeir vonast jafnframt til að sem flestir mæti á völlinn og að áhorfendamet verði slegið. Þess má geta að leikurinn er settur laugardaginn 10. apríl klukkan 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir