Ein færanleg rafstöð verður staðsett í Borgarnesi. Hér taka þau við henni Elín Matthildur Kristinsdóttir formaður Brákar og Pétur B. Guðmundsson stjórnarmaður.

Björgunarsveitir fá nýjar færanlegar rafstöðvar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, færði á föstudaginn fulltrúum þrettán björgunarsveita Landsbjargar nýjar færanlegar rafstöðvar. Fór afhending þeirra fram við athöfn í húsakynnum Neyðarlínunnar á Hólmsheiði. Færanlegum rafstöðvum verður komið fyrir hjá björgunarsveitum sem taldar eru best til þess fallnar að nýta þær þegar neyðarástand skapast, en umráðamenn þeirra munu koma þeim á aðra staði þegar verkefni kalla eftir því. Staðirnir hér á Vesturlandi sem fá færanlega rafstöð að þessu sinni er björgunarsveitirnar Brák í Borgarnesi, Lífsbjörg í Snæfellsbæ og Heimamenn á Reykhólum. Áður hafði slíkri rafstöð verið komið fyrir á Akranesi og er hún staðsett í starfsstöð Mílu.

Björgunarsveitir Landsbjargar munu alls fá um 30 nýjar færanlegar rafstöðvar á þessu ári. Tilgangurinn með verkefninu er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum þegar óveður ganga yfir eða hamfarir verða. Eiga þær að tryggja eins og kostur er að hægt verði að hringja eftir aðstoð í neyð og kalla út viðbragðsaðila. Með því að fjölga færanlegum rafstöðvum og staðsetja hjá björgunarsveitum víðsvegar um landið verður hægara að koma rafmagni aftur á þar sem þörf krefur og bæta þannig lífsgæði fólks og öryggi.

Úrbætur til að bæta öryggi

Afhending þessara færanlegu rafstöðva markar upphaf á öðrum áfanga í átaki stjórnvalda um úrbætur á fjarskiptainnviðum, en ákvörðun var tekin um að bæta það eftir óveðrið mikla sem gekk yfir norðanvert landið í desember 2019. Í fyrri áfanga var varaafl bætt á 68 fjarskiptastöðvum, einkum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Í þeim síðari er hugað að fjarskiptastöðvum á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu. Færanlegar rafstöðvar bætast þannig við net af föstum rafstöðvum um land allt. Þegar átakinu lýkur mun samanlagt afl allra varaaflstöðvanna nema um 2 MW. Meðalafl fastra rafstöðva er um 20 KW en í færanlegum rafstöðvum um 15 kW. Verkefnið fékk 275,5 milljóna kr. fjárveitingu árið 2020 sem stýrt er í gegnum Fjarskiptasjóð.

„Að bæta rekstraröryggi á fjarskiptainnviðum er mikilvægt samfélagslegt verkefni sem við tökum þátt í og öxlum þannig okkar ábyrg sem hluti af almannavarnakerfinu. Færanlegar rafstöðvar eru einnig frábært verkfæri fyrir björgunarsveitir sem þurfa oft að glíma við krefjandi verkefni og munu þær nýtast vel í ýmsum aðstæðum í framtíðinni,“ segir Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Tveir áfangar

Neyðarlínan hefur átt í nánu samstarfi við Mílu, fjarskiptafélögin Nova, Símann og Sýn (Vodafone) og Ríkisútvarpið um aðgerðir til að tryggja samfelld fjarskipti í langvarandi rafmagnsleysi. Neyðarlínan er í forsvari fyrir verkefninu. Varaaflsverkefninu var skipt í tvo áfanga. Í fyrra áfanganum var unnið að verkefnum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og gerðar voru margvíslegar úrbætur á 68 fjarskiptastöðum. Settar hafa verið upp 32 nýjar fastar vararafstöðvar, rafgeymum bætt við á tíu lykilskiptistöðvum fjarskipta, tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar settir upp á 26 stöðum, ljósleiðaratengingum fjölgað og ýmsar endurbætur gerðar á öðrum stöðum. Vinna við annan áfanga er að hefjast og þá er stefnt á sambærilegar úrbætur á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu. Þó hefur þegar tekist að gera ýmsar úrbætur á Vestur- og Suðurlandi í tengslum við fyrri áfangann en þeirri vinnu verður haldið áfram, segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira