Nýr sjóvarnargarður uppbyggður á Akranesi – myndband

Á síðasta ári hófust framkvæmdir við nýjan sjóvarnargarð meðfram Faxabraut á Akranesi. Garðurinn var breikkaður og hækkaður um tvo metra til að verja mætti væntanlega byggð á Sementsreitnum svokallaða fyrir ágangi sjávar. Grjótgarðurinn var boðinn út samhliða uppbyggingu Faxabrautar og er það Borgarverk sem annast verkið. Alls kostar það um hálfan milljarð króna og eru framkvæmdaraðilar Vegagerðin, Akraneskaupstaður og veitufyrirtæki. Nú er grjótvarnargarðurinn risinn eins og sjá má á meðfylgjandi loftmynd sem tekin var fyrir helgina. Byrjað er að byggja undir nýja og hærri götu og leggja lagnir í hana eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Í byrjun september var lagður bráðabirgðavegur landmegin sem nýst hefur ágætlega framkvæmdaraðilum sem og almennum ökumönnum. Umferð gangandi er hins vegar óheimil um svæðið. Samkvæmt útboðsgögnum á verkinu að verða lokið síðsumars og má vænta þess að þá muni Akraneskaupstaður bjóða út fleiri lóðir á Sementsreitnum. Þegar er búið að auglýsa lóðir efst á reitnum, næst Suðurgötu, og fengu færri en vildu.

Hér má sjá sjá myndband af framvæmdinni tekið úr dróna. 

Myndir: Jón Þórólfur Guðmundsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir