Flekaflóðið féll í klettabeltinu ofan við björgunarsveitarfólkið sem þarna er að nálgast mennina. Ljósm. Tryggvi Valur Sæmundsson.

Lentu í snjóflóði í norðurhlíðum Skessuhorns

Síðdegis í gær voru björgunarsveitir Landsbjargar í Borgarfirði og á Akranesi kallaðar út til verkefnis í norðurhlíðum Skessuhorns í Borgarfirði. Tilkynning hafði borist Neyðarlínunni frá tveimur mönnum sem lent höfðu í snjóflóði í fjallinu um nónbil. Mennirnir náðu sjálfir að tilkynna um stöðu sína eftir að þeir komust úr flóðinu. Annar þeirra hafði tognað á fæti en hinn var óslasaður. Þeir komust því ekki niður af fjallinu af sjálfsdáðum enda var mikil hálka á vettvangi og harðfenni. Fyrstu björgunarsveitarmenn komu að mönnunum síðdegis á sexhjóli. Hlúð var að þeim á vettvangi og þeim síðan fylgt niður hlíðina í fylgd björgunarsveitarfólks til móts við bíl sem flutti þá niður á veg.

Veður var gott til björgunarstarfa, að sögn Tryggva Vals Sæmundssonar hjá björgunarsveitinni Oki í Borgarfirði, en hann var í hópi fyrstu björgunarsveitarmanna á vettvang. Aðstæður voru þó varhugaverðar í fjallinu að sögn Tryggva. Þrátt fyrir að þar sé óvenjulega lítill snjór miðað við árstíma hafi verið mjög hált á fjallinu og varasamt að fara um. Segir Tryggvi að snjóflóðið sem féll hafi verið svokallað flekaflóð. Hart hjarn í um 500 metra hæð í klettabelti ofan við Horn fer á skrið undan mönnunum. Mennirnir voru vel búnir og vel á sig komnir samkvæmt upplýsingum frá Tryggva. Gengu björgunaraðgerðir vel og var þeim lokið undir kvöld.

Þrír galvaskir björgunarsveitarmenn á heimleið eftir vel heppnaða björgun.

Björgunarsveitarfólk að safnast saman neðst í fjallinu ofan við Horn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir