Ætla að kostnaðarmeta nauðsynlegar lagfæringar í Brákarey

Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum síðastliðinn fimmtudag að fela sveitarstjóra að afla tilboða í úttekt á gamla sláturhúsinu í Brákarey og leggja fyrir næsta fund byggðarráðs. Eins og fram kom í fréttum í síðustu viku var umferð og notkun í húsunum Brákarbraut 25 og 27 bönnuð frá og með laugardeginum 13. febrúar vegna alvarlegra athugasemda um ástand hússins m.t.t. brunavarna og öryggis. Í meðfylgjandi skýrslu eldvarnaeftirlitsmanns, sem birt er með fundargerð byggðarráðs, koma fram alvarlegar athugasemdir við ýmsa galla vegna ástands húsanna sem um ræðir.  Ljóst er að ráðast þarf í miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir ef leyfa má starfsemi í húsunum að nýju.  Byggðarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn að byrjað verði á því að kostnaðarmeta þær endurbætur á húsnæðinu sem nauðsynlegt er til að tryggja öryggi þannig að mögulegt verði að heimila starfsemi að nýju í húsnæðinu. Í kjölfar þeirrar úttektar verði haldinn fundur með öllum leigjendum ásamt byggðarráði þar sem rædd verði málefni hvers leigjanda fyrir sig.

Þá kom fram í bókun á fundi byggðarráðs að byggingarfulltrúi hefur heimilað að leigjendur sem þurfi að komast inn í húsnæðið að Brákarbraut 25 og 27 geti haft samband við Ámunda Sigurðsson, verkstjóra í áhaldahúsinu. Leigjendur geta haft samband við hann þegar þeir þurfa að fara inn og sömuleiðis verða þeir að láta hann vita þegar þeir eru komnir út. Ámundi mun halda skrá yfir ferðir í húsnæðið að beiðni byggingarfulltrúa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir