Rör og tækjabúnaður í nýja raforkuverinu. Ljósm. bhs.

Prufukeyrðu nýja raforkuframleiðslu í Reykholti

Í Reykholti í Borgarfirði hefur fyrirtækið Varmaorka undanfarin misseri unnið við uppsetningu véla og tækjabúnaðar sem framleiða mun rafmagn úr yfirhita á heitu vatni. Fyrirtækið er í nánu samstarfi við sænska fyrirtækið Climeon AB sem býður upp á sérhæfðar tæknilausnir fyrir nýtingu lág- og meðalhita til framleiðslu raforku. Verkefnið hefur nú verið í undirbúningi í rúm tvö ár og var tækjabúnaðurinn prufukeyrður í dag og lofar góðu.

Tækjunum var komið fyrir í fyrrum verkstæðis- og verslunarhúsi í Reykholti sem er við hlið borholu staðarins. Stöðinni er ætlað að framleiða 300 kW af orku sem seld verður inn á dreifikerfi Landsnets. Nýtt er nýleg borhola í Reykholti sem skilar 14 lítrum á sekúndu af 127° C heitu vatni, sem er alltof heitt til að hægt sé að nýta það með beinum hætti til húshitunar. Varmaverinu er ætlað að nýta yfirhitann á vatninu til að framleiða rafmagn en skilar jafnframt frá sér rúmlega 80°C heitu vatni sem dælt verður inn á dreifikerfi hitaveitunnar á staðnum. Kalda vatninu, sem veitan notar til að vinna rafmagn úr yfirhitanum, er dælt úr Reykjadalsá.

Líkar þetta

Fleiri fréttir