Frumvarp sem leggst gegn blóðmerahaldi

Inga Sæland formaður Flokks fólksins hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um velferð dýra. Frumvarpið leggur til að svokallað blóðmerahald verði bannað hér á landi og því verði bannað að taka blóð úr fylfullum hryssum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.

Í greinargerð með frumvarpinu segir Inga meðal annars að hér á landi sé virkur iðnaður sem felist í blóðtöku úr lifandi hrossum í því skyni að vinna úr blóðinu hormón (PSMG) sem seld eru til líftæknifyrirtækja svo framleiða megi frjósemislyf fyrir búfénað. Þetta hormón finnst aðeins í blóði fylfullra hryssa. Líftæknifyrirtæki borga hátt verð fyrir hormónið og því hefur blóðmerahald aukist til muna hér á landi að undanförnu. Árið 2019 voru yfir fimm þúsund hryssur notaðar í þessum tilgangi. Á nokkrum stöðum er þetta orðið að stórbúskap, með allt að 200 hryssur í blóðframleiðslu. Þá segir orðrétt í greinargerðinni: „Ekki var fjallað sérstaklega um þessa starfsemi í frumvarpi um velferð dýra og ekki er fjallað um hana sérstaklega í reglugerð um velferð hrossa eða í reglugerð um velferð dýra sem eru notuð í vísindaskyni. Ekki er í þessum reglugerðum fjallað um hversu langt megi ganga við reglulega blóðtöku úr fylfullum merum í því skyni að framleiða PSMG umfram almenn ákvæði þeirra. Það er því ekkert í lögum eða reglugerðum sem kveður á um hve mikið af blóði megi taka úr fylfullum merum hverju sinni, né hve oft, né hvaða aðbúnaður þurfi að vera til staðar. Þetta er með öllu ótækt í ljósi þess hve umfangsmikil þessi starfsemi er hér á landi,“ segir Inga Sæland.

Líkar þetta

Fleiri fréttir