Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri í Grundarfirði berst fyrir því að upplýsingaflæði frá Fjársýslu ríkisins batni, þannig að sveitarfélög eigi auðveldara með áætlanagerð sína. Ljósm. úr safni/ tfk.

Fjársýslan með misvísandi upplýsingar til sveitarfélaga

Í því skyni að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveirunnar var gerð breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda á síðasta ári. Breytingin færði launagreiðendum, sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna faraldursins, heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum skatta, þ.m.t. útsvari, á tímabilinu apríl til desember 2020. Vísbendingar eru um að þessa kerfisbreytingu hafi ríkisvaldið ekki náð að halda utan um. Í lok nýliðins árs greiddi Fjársýsla ríkisins útsvar til sveitarfélaga, sem frestað hafði verið, að upphæð 3,1 milljarður króna. Sveitarfélögum hafði verið kynnt að frestun þessara greiðslna myndi ekki hafa áhrif á greiðslur útsvars til þeirra. Ríkið sér um það fyrir sveitarfélögin að innheimta útsvar af launatekjum, samhliða innheimtu tekjuskatts og tryggingargjalds. Viðbótargreiðslur útsvars komu sveitarfélögum því á óvart í lok síðasta árs.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, hefur ítrekað vakið máls á því sem hún kallar skort á gagnsæi í uppgjöri og upplýsingagjöf um útsvar sveitarfélaganna, sem fái engar upplýsingar aðrar en þær sem felast í strípuðum tölum um regluleg innlegg á bankareikning. Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur allt frá árinu 2018-19 rýnt í þessi mál og kallað eftir haldbetri upplýsingum um megintekjustofn sinn, m.a. um fjölda launagreiðenda og launþega, um uppruna og skiptingu útsvars eftir atvinnugreinum. Meðal annars flutti hún ítarlegt erindi um málið á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga síðastliðið haust. Segir hún að skortur á upplýsingum bæði um uppgjör og væntanlegar útsvarstekjur geri sveitarfélögum erfitt um vik með að stýra rekstri. Við erfið rekstrarskilyrði og óvissu, eins og á síðastliðnu ári, sé þessi skortur á upplýsingum og þekkingu á eðli og uppruna útsvarsins ekki hvað síst bagalegur. Björg hefur ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi kallað eftir haldbetri upplýsingum um útsvarstekjur; um álagningu útsvars, innheimtu og almennt um upplýsingagjöf af hendi ríkisins og stofnana þess.

Kostnaðarsamt fyrir sveitarfélögin

Grundarfjarðarbæ bárust útsvarsgreiðslur í lok desember sem ekki voru fyrirséðar þegar endurskoðun fjárhagsáætlunar fór fram síðasta haust og endurspeglaðist ekki í spám um útsvarsgreiðslur á síðasta ári sem unnið hafði verið eftir. Af þeim sökum hafði bæjarfélagið verið búið að taka lán sem var hærra en ástæða var til að taka, þegar skekkja í upplýsingum Fjársýslu ríkisins kom í ljós. Bæjarfélaginu hafi ekki verið kunnugt um það á síðasta ári að innborgaðar útsvarsgreiðslur ársins væru ekki að skila sér að fullu þegar þær voru greiddar inná reikning sveitarfélagsins. Björg segir að útsvarið sé langveigamesti tekjustofn sveitarfélaganna og því afar brýnt að bæta upplýsingaflæði milli ríkis og sveitarfélaganna. Á fundi bæjarráðs í lok janúar og bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar í síðustu viku var samþykkt að lýsa furðu yfir þessu verklagi af hálfu ríkisins, að útsvar hafi ekki verið greitt sveitarfélögunum í samræmi við skilagreinar og fyrri upplýsingar af hálfu ríkisins um að heimiluð frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda hefði ekki áhrif á greiðslur útsvars til sveitarfélaganna.

Fá ekki upplýsingar um uppruna tekna

Bæjarráð og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hafa nú sett fram formlega gagnrýni á slaka upplýsingagjöf af hálfu ríkisins til sveitarfélaga um útsvarið og kalla eftir haldbetri upplýsingum, m.a. um uppruna útsvars og skiptingu eftir atvinnugreinum. „Þegar miklar sviptingar eru í efnahagsmálum þjóðarinnar og óvissa mikil, eins og allt síðasta ár vegna áhrifa Covid, þá er það sérlega bagalegt hve litla innsýn sveitarfélögin hafa í eðli og uppruna útsvarstekna sinna. Það er að auki allsendis óviðunandi að sveitarfélög þurfi að byggja fjárhagsstjórn sína á misvísandi upplýsingum um megintekjustofn sinn,“ segir í bókun bæjarráðs Grundarfjarðar sem jafnframt kallar eftir skoðun og nánari reikningsskilum frá Fjársýslunni á útvarstekjum til Grundarfjarðarbæjar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir