Eitt af því fyrsta sem væntanlegt ferðafélag stefnir að er skipulagning þriggja daga gönguleiðar frá Hlíðarvatni til Hreðavatns. Hér er svipmynd frá upphafspunkti. Ljósm. mm.

Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs stofnað á næstunni

Unnið er að stofnun ferðafélags í Borgarfirði. Stofnun félagsins er sprottin upp úr áhuga nokkurra einstaklinga á að auka veg og virðingu svokallaðrar Vatnaleiðar sem tengir saman Borgarfjörð og Snæfellsnes en hún liggur milli Hlíðarvatns, Hítarvatns, Langavatns og Hreðavatns. Til er kort af leiðinni en markmiðið er að stika hana og lagfæra og byggja upp betri þjónustu við göngufólk.

Í hópi hvatamanna að stofnun ferðafélagsins eru þeir Gísli Einarsson og Björn Bjarki Þorsteinsson í Borgarnesi. Þeir segja að markmið félagsins verði að standa fyrir skipulögðum gönguferðum innan héraðs og utan. Einnig að vinna að uppbyggingu gönguleiða í Borgarfirði og nágrenni, merkingu þeirra og kortlagningu. Reiknað er með að uppbygging Vatnaleiðar verði eitt af fyrstu verkefnum væntanlegs félags en einnig allar aðrar hugsanlegar gönguleiðir sem þörf og áhugi er fyrir að stika og kortleggja.

Undirbúningshópur áhugafólks um útivist í Borgarfirði vinnur nú að undirbúningi fyrir stofnfund sem haldinn verður í Borgarnesi, að öllum líkindum mánudaginn 1. mars næstkomandi kl. 20. Nánari tímasetning, form og staðsetning fundarins verður kynnt á netmiðlum strax og hægt verður en taka þarf mið af þágildandi samkomutakmörkunum. Allir sem áhuga hafa á gönguferðum og útiveru eru hvattir til að gerast stofnfélagar í hinu nýja ferðafélagi. Stefnt er að því að verðandi ferðafélag verði deild innan Ferðafélags Íslands.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira