Jákvæður viðsnúningur í rekstri Knattspyrnufélags ÍA

Aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA verður haldinn í kvöld kl. 20, í fundarsalnum í Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum. Í tilkynningur frá félaginu segir: „Stjórn félagsins hefur ákveðið að halda fundinn miðað við þær samkomutakmarkanir sem í gildi eru, en þær heimila 20 manna fund en það er einmitt sá lágmarksfjöldi sem krafist er til þess að fundurinn teljist löglegur. Óskað er eftir skilningi félagsmanna en mikilvægt er að aðalfundur fari fram til að skipa stjórn og taka ársreikning til afgreiðslu þannig að starfið geti haldið áfram sinn vanabundna gang. Jafnframt hefur stjórn félagsins ákveðið að birta á heimasíðu félagsins ársskýrslu og ársreikning fyrir starfsárið 2020, fjárhagsáætlun 2021 og þær lagabreytingar sem fyrir fundinum liggja. Félagsmenn geta því kynnt sér þessi gögn og ef þeir þess óska komið spurningum um þau eða athugasemdum til framkvæmdastjóra (geir@ia.is) þannig að um slíkt megi fjalla á fundinum.“ segir í tilkynningu frá KFÍA.

Þá kemur fram í tilkynningunni frá félaginu að Knattspyrnufélag ÍA glímdi við erfiðleika í rekstri félagsins á starfsárinu. „Félagið þurfti að hagræða í rekstri sínum vegna Kórónufaraldurins og umtalsverðs rekstrartaps frá fyrra starfsári. Með samstilltu átaki sem fól m.a. í sér launalækkun á öllum sviðum og sölu leikmanna félagsins tókst að reka félagið með hagnaði. Rekstrartekjur voru rúmar 210 milljónir króna en rekstrargjöld rúmar 207 milljónir króna sem gerði rekstrarafgang að teknu tilliti til fjármagnsliða upp á 2,7 milljónir króna.“

Tókst að snúa taprekstri í hagnað

Fram kemur í ársreikningnum að mikill og jákvæður viðsnúningur hafi orðið í rekstri félagsins á árinu. Tæplega þriggja milljóna króna hagnaður nú samanborið við tæplega 62 milljóna króna tap árið áður. Rekstrartekjur félagsins jukust um ríflega 12 milljónir króna en mestu munar um að rekstrargjöld lækkuðu úr tæpum 260 milljónum í rúmar 207 milljónir. Söluhagnaður leikmanna hækkaði um rúmar níu milljónir króna milli ára, æfinga- og félagsgjöld jukust um tæpar sjö milljónir, framlög styrktaraðila jukust um rúmar sjö milljónir og greiðslur frá KSÍ jukust um fjóra og hálfa milljón. Gjaldamegin lækkuðu laun og launatengd gjöld um rúmlega 13 milljónir milli ára og annar rekstrarkostnaður um tæpar 20 milljónir.

Birta allar upplýsingar

Í samtali við blaðamann Skessuhorns sagði Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins, að það væri alls ekki þannig að viðsnúningur í rekstri félagsins væri eins manns verk eins og komið hafi fram í sumum fjölmiðlum. Bætt afkoma félagsins hafi náðst með öflugri samstöðu allra; stjórnar, starfsmanna, leikmanna og allra annarra sem koma að félaginu. „Þessi árangur náðist með því að velta hverri krónu við til að ná endum saman og á stjórn og starfsfólk heiður skilinn fyrir það. Við skárum niður þar sem hægt var og þekkingin og innsýnin í reksturinn og knattspyrnustarfið skipti öllu máli,“ segir Geir.

Hann segir að næstu misserin verði strembinn tími. „Það skiptir máli í þessari stöðu að við erum nánast skuldlaust félag en á sama tíma eigum við engar eignir, enga sjóði. Við byrjum því hvert tímabil með tómar hendur svo að segja.“ Geir bendir á að það að birta öll gögn, ársreikninga og annað, sé dálítið merkilegt og eiginlega fordæmalaust. „Það er sennilega einstakt í íslenskri íþróttasögu að félag birti allar þessar upplýsingar með þessum hætti fyrir aðalfund.“

Magnús hættir

Magnús Guðmundsson sem verið hefur formaður Knattspyrnufélags ÍA undanfarin sjö ár hefur ákveðið að stíga til hliðar. Í ársskýrslu félagsins kveður hann félaga sína með þessum orðum:

„Þrátt fyrir að árið 2020 hafi verið þungt í skauti vegna Covid-19 heimsfaraldursins þá eru mörg jákvæð teikn á lofti fyrir knattspyrnuna á Akranesi. Staðan í rekstri Knattspyrnufélags ÍA er í góðu jafnvægi og allt starfið einkennist af metnaði og fagmennsku. Það eru líka afar jákvætt að Akraneskaupstaður hefur ákveðið að auka framlög til íþróttafélaga í bænum og að hefja byggingu íþróttahúss á Jaðarsbökkum þar sem verða m.a. búningsklefar og vinnuaðstaða fyrir Knattspyrnufélag ÍA. Framtíðin er því björt fyrir knattspyrnuna á Akranesi en áfram þarf úthald, samstöðu og þrautseigu til að ná settum markmiðum. Eftir sjö ár sem formaður Knattspyrnufélags ÍA hefur undirritaður ákveðið að stíga til hliðar. Það hefur verið mikill heiður og ánægja að sinna starfi formanns félagsins og upp úr standa frábær kynni og samvinna við fjöldan allan af Skagamönnum með ÍA hjartað á réttum stað. Knattspyrnufélag ÍA er magnaður klúbbur með mikla sögu sem sameinar Skagamenn nær og fjær. Takk fyrir mig og áfram ÍA!,“ segir Magnús Guðmundsson, fráfarandi formaður Knattspyrnufélags ÍA í yfirlýsingunni.

Þess má að lokum geta að aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA í kvöld verður í beinni útsendingu á vegum ÍATV.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.