Pólitísk ólga vegna aðgerða í Brákarey

Eins og fram kom í frétt hér á vefnum síðastliðinn fimmtudag tóku forsvarsmenn Borgarbyggðar þá ákvörðun að loka allri starfsemi í húsum í eigu sveitarfélagsins að Brákarbraut 25 og 27 í Brákarey frá og með laugardeginum 13. febrúar. Um er að starfsemi í húsum fyrrum sláturhúss, frystihúss og hluta fjárréttar. Þetta var ákveðið í kjölfar alvarlegra athugasemda eldvarnaeftirlits og byggingafulltrúa sem bárust síðastliðinn fimmtudag. Húsnæðinu hefur því verið lokað um ótiltekinn tíma og boðuð uppsögn leigusamninga, en um er að ræða starfsemi samtals fjórtán rekstraraðila; félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana. Í tilkynningu frá Borgarbyggð kom fram að ákvörðun þessi hafi verið tekin í sameiningu slökkviliðs, byggingafulltrúa, fulltrúa byggðarráðs og sveitarstjóra.

Blaðamaður Skessuhorns var á ferðinni í Brákarey í gær, sunnudag. Eyjan var nánast mannlaus og engir á ferli í húsum, enda slík umferð bönnuð. Þegar svo íþyngjandi aðgerðir eru boðaðar snerta þær eðli málsins samkvæmt marga. Húsakostur fyrrum sláturhúss hefur verið nýttur fyrir fjölmarga starfsemi sem ýmist hefur greitt lága leigu fyrir afnot af húsunum eða enga. Þannig eru t.d. um fjögur hundruð félagsmenn í fornbílafélagi, bifhjólaklúbbi, skotáhugafólk og eldri borgarar sem stunda pútt með aðstöðu í húsunum. Auk þess vinnustaður Öldunnar, bátasmiðja og trésmíðaverkstæði svo nokkrir rekstraraðilar séu nefndir.

Margir hafa tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum. Frétt Skessuhorns um lokun starfseminnar var deilt á Borgarnessíðu á Facebook. Þar hafa margir tjáð sig; almennir íbúar, embættismenn og kjörnir fulltrúar. Davíð Sigurðsson, sem sæti á í sveitarstjórn fyrir Framsóknarflokk, segir á að engin ákvörðun hafi verið tekin í sveitarstjórn um framtíð leigu á mannvirkjum í Brákarey og bendir hann á að það sé ekki í verkahring embættismanna að taka ákvörðun um hvort eða hvernig verður brugðist við þeim upplýsingum sem liggja fyrir um eldvarna- og öryggismál í húsunum í Brákarey. Þá færslu skrifar Davíð til andsvara við persónu sem skrifar á síðuna undir heitinu „Borgarbyggð.“

Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Sjálfstæðisflokks, kemur til varnar „Borgarbyggð“. Bendir hún á að starfsmenn sveitarfélagsins hafi verið að bregðast við þessari erfiðu stöðu sem upp er komin og verði að gefa þeim svigrúm til að gera svo. „Ekki væri staða sveitarfélagsins betri ef að ekki hefði verið ákveðið að bregðast við neinu þegar í stað, eftir að niðurstaða svona úttektar liggur fyrir. Enginn vill bera ábyrgð á slysum á fólki við þær aðstæður enda væri þá um hreint gáleysi að ræða af hálfu sveitarfélagsins. Allir eru meðvitaðir, að um mjög íþyngjandi aðgerðir er að ræða en þess vegna er leitast að veita greinargóð svör við spurningum sem vakna í umræðum um málið,“ skrifar Lilja Björg og bætir við: „Það þurfti að grípa til tafarlausra aðgerða miðað við þá niðurstöðu sem fram kom í úttektinni á húsnæðinu og var það gert með tímabundinni lokun til að öryggi allra aðila yrði tryggt þar til búið er að taka ákvörðun um næstu skref í málinu. Fjallað verður um málið á allra næstu dögum af kjörnum fulltrúum og þá af yfirvegun og skynsemi og í samráði við þá aðila sem leigja húsnæðið af sveitarfélaginu. Ljóst er að meta þarf hvert tilfelli fyrir sig, bæði út frá ástandi þess hluta húsnæðis sem um ræðir, starfsemi viðkomandi hluta og leigjendur. Nú reynir á þá sem starfa fyrir sveitarfélagið á einum eða öðrum vettvangi að taka höndum saman og leitast við að finna góða lendingu fyrir málið en ekki að beina fingrum hvort að öðru eða starfsfólki ráðhússins sem er að reyna að koma í veg fyrir bæði munatjón og tjón á fólki á meðan málið er til lykta leitt,“ skrifar Lilja Björg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira