Haraldur Benediktsson bóndi og alþingismaður. Ljósm. mm.

Haraldur stefnir ótrauður á að leiða áfram lista Sjálfstæðisflokks

Haraldur Benediktsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og fyrsti þingmaður kjördæmisins býður fram krafta sína áfram og stefnir ótrauður á að leiða lista flokks síns fyrir alþingiskosningarnar í haust. Í viðtali við blaðamann Skessuhorns segir hann hafa fullan vilja til að skipa efsta sætið líkt og hann hefur gert fyrir síðustu kosningar. Á næstunni mun Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi ákveða með hvaða hætti framboðslisti verður ákveðinn, hvort sem það verður með uppröðun eða prófkjöri. Eins og fram kom í blaðaviðtali í haust lýsti Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir ráðherra og varaformaður flokksins því yfir að hún hafi vilja til að vera í forystu áfram hjá Sjálfstæðisflokknum í NV kjördæmi en hún skipar nú annað sætið. Þá hefur Teitur Björn Einarsson á Sauðárkróki lýst því yfir að hann gefi kost á sér í þingsæti og vafalítið munu fleiri nöfn bætast í þá baráttu. „Ég hef alltaf haft þá reglu að segja það hreint út hvert hugur minn stefnir. Þótt ég hafi lítið gefið uppi fram að þessu hef ég tekið þá ákvörðun að óska eftir endurkjöri til að leiða listann, en auðvitað eru það flokksmenn sem ráða því þegar upp verður staðið. Framboðsmál flokksins fyrir komandi þingkosningar eru ennþá á frumstigi í flestum kjördæmum og einna helst að umræðan sé lengst komin á Suðurlandi þar sem sitjandi þingmenn hafa allir lýst yfir vilja til að halda áfram. Hér í Norðvesturkjördæmi verður ákveðið á aðalfundi kjördæmisráðs í mars hvert fyrirkomulagið verður og í framhaldi af því verður leitað eftir frambjóðendum.“ Sest var niður með Haraldi á heimili hans á Vestri-Reyni í gær. Þingstörf hafa nú að hluta færst á netið sem hann telur mikinn kost. Kann hann að meta gagnorða fundi og að þurfa minni tíma að verja í bíl við akstur á milli vinnustaða. Rætt er um störfin á þingi, hvað hafi áunnist og helstu áherslumál, stöðu landsbyggðarinnar og fleira.

Áhrifavaldar

Í upphafi berst talið að þingmennskunni. „Það var eiginlega alveg óvart sem ég fór í framboð. Það var að áeggjan frænda míns, Guðjóns Guðmundssonar fyrrum þingmanns og fleiri sem það varð úr. Ég var staddur í útlöndum haustið 2012 þegar Guðjón hringir í mig. Var að fara í flug og mátti ekki vera að ræða við hann. Hafði þá gert upp við mig að hætta formennsku hjá Bændasamtökunum.  Sagði því í hálfkæringi að ég léti vaða. Þegar ég svo kveiki á símanum næst bíða mín mörg skilaboð. Þá hafði Guðjón einfaldlega komið því á framfæri að ég sæktist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi. Það varð niðurstaðan. Eiginlega var Guðjón álíka áhrifamaður í mínu lífi og Ari Teitsson fyrrum bændaforingi. Hann hafði ákveðið að draga sig í hlé og hvetur mig til þess að bjóða mig fram. Heimsækir Ari mig og segist hafa dreymt mig og að ég væri að taka við skónum hans! Þegar hann kemur hingað í gættina sér hann alveg nákvæmlega eins skó og hann sjálfur átti, nema hvað mínir voru minni og alveg nýir! „Þarna sérðu,“ sagði Ari, „hér er draumurinn klárlega að raungerast.“ Ég fór í framboð til formanns Bændasamtaka Íslands og var kosinn með ágætum yfirburðum. Svona er lífið og stundum tilviljun, en á bakvið þessa áhrifavalda mína, er sú trú fólks að mér sé treystandi fyrir vandasömum verkefnum, ég er þakklátur fyrir það.“

Stoltastur af ljósleiðaranum

En hvernig stjórnmálamann skilgreinir Haraldur sig? „Ég hef aldrei litið á mig sem pólitískt ljón og eftirspurn mín eftir að klífa hratt upp pólitíska metorðastigann er hófstillt. Ég hef hins vegar mikinn metnað fyrir vexti og viðgangi ólíkra byggða í Norðvesturkjördæmi og hef reynt að einbeita mér að þingmálum sem snerta hag íbúa. Þetta er ekkert ósvipuð hugsjón og ég hafði þann tíma sem ég gegndi formennsku í Bændasamtökum Íslands. Það eru lífsaðstæður og búsetuskilyrði fólks á landsbyggðinni sem eru og verða mín baráttumál. Ég nefni sérstaklega ljósleiðaravæðingu landsbyggðarinnar, enda er ég stoltastur af því verki. Einnig átak í þriggja fasa rafvæðingu, sem hófst í Borgarbyggð, og jöfnun dreifikostnaðar raforku. Þórdís Kolbrún hefur sem ráðherra beitt sér í þessum hluta raforkumála og er að ná árangri þar. Þetta er dæmi um pólitík sem þingmenn þurfa að reka áfram af festu til að landsbyggðin sitji ekki eftir í aðstöðu gagnvart þéttbýlinu.“

Bjargaði ekki einvörðungu landsbyggðinni

Segja má að ótvíræðir kostir ljósleiðaravæðingarinnar hafa raungerst í kóvidfaraldrinum síðastliðið ár. Þar er Ísland nú í fararbroddi. „Ljósleiðaravæðingin er eitt stærsta byggðamálið í áratugi. Hér á mínu heimili sjáum við á eigin skinni hversu mikið góð fjarskiptatenging hefur að segja. Tvö eldri börnin geta sinnt vinnu og námi í fjarvinnu, dóttir mín í Kaupmannahöfn og sonurinn í Háskólanum í Reykjavík. Lilja Guðrún kona mín getur sinnt öllu skýrsluhaldi og búreikningum í gegnum netið og sjálfur sit ég orðið flesta nefndafundi á Alþingi í fjarfundum eftir að kóvid helltist yfir. Það er einungis yngsta dóttirin sem fer daglega í skólann sinn. Þetta sýnir ágætlega hversu mikið öflug fjarskiptatenging hefur að segja fyrir landsbyggðina. Nánast á einni nóttu var hægt að flytja stóran hluta atvinnulífs heim til starfsmanna. En ljósleiðarinn hefur ekki einvörðungu bjargað dreifbýlinu því almennt gat þorri landsmanna sinnt vinnu áfram þótt heimsfaraldur stæði yfir og vinnustöðum hefði mörgum verið lokað. Hér á landi hefði því efnahagslegur skellur orðið enn dýpri ef þjóðin hefði ekki verið komin í fremstu röð í fjarskiptum. Ég er því stoltur að mínu framlagi hvað þetta snertir. Það sem þótti ógerlegt árið 2015 er verið að ljúka núna árið 2021.“

Allir heilir í sínu starfi

Haraldur lætur vel af samstarfi við aðra þingmenn kjördæmisins á líðandi kjörtímabili, en hlutverk fyrsta þingmanns er ætíð að vera í forystu fyrir þeim hópi, óháð því fyrir hvaða flokka fólk starfar. „Ég er ánægður með minn feril og það sem ég hef áorkað sem þingmaður. Það er alltaf skemmtileg áskorun að hreyfa við málum sem þingmaður og ég hef átt gott samstarf við flestalla í pólitíkinni. Það var vissulega góður skóli á næstsíðasta kjörtímabili að vera formaður fjárlaganefndar þegar ekki var meirihluti starfandi í þinginu, þegar þurfti að setja fjárlög fyrir árið 2017. Það gekk og þingið hafði leyst það verkefni án ríkissjórnar.  Þó ég mæli ekki með því, þá stóðst þingið þá áskorun og ég fékk það hlutverk að leiða starf fjárlaganefndar. Mér fannst hafa gengið vel að leiða saman ólík sjónarmið þannig að niðurstaða fengist sem flestir gátu sætt sig við. Á þessu kjörtímabili sem er nú langt komið hef ég lagt áherslu á að vinna vel með öllum þingmönnum kjördæmisins og hefur það gengið vel, undanskil engan enda allir verið heilir í sinni vinnu.“

Útilokar ekkert

Talið berst nú að ráðherrastólum en Haraldur hefur eins og kunnugt er ekki sótt það stíft að sækjast eftir slíkum vegtyllum. „Þegar verið var að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar árið 2016 kom að hinu hefðbundan ráðherravali. Ég hins vegar hafði ekki trú á samstarfi við þessa flokka og því miður reyndist það ekki vera út í loftið.  Bjarni Benediktsson formaður stóð auk þess frammi fyrir þeirri áskorun að hafa sem jafnasta kynjaskiptinu í ráðuneytunum sem féllu í hlut flokksins. Ég stakk því upp á að hann biði Þórdísi ráðherrastól. Við síðustu stjórnarmyndun hafði Sjálfstæðisflokkurinn færri ráðherrastóla úr að spila og studdi ég áfram að Þórdís fengi einn þeirra. Fannst það skipta kjördæmið miklu máli að við ættum þar sæti. Áfram hafði ég og hef mikinn metnað fyrir þeim verkefnum sem mér er trúað fyrir en ákvað að metnaði mínum yrði best fundinn farvegur með að sinna þingmennskunni og tel mig hafa orðið þar að liði. Alþingismaður sem er vinnusamur og virkjar þær leiðir sem eru í boði getur áorkað miklu.  Hins vegar útiloka ég ekkert, komi síðar meir sú staða upp að ráðherrastóll verði í boði. Loka mig alls ekki af í þeirri hugsun. Ég lít hins vegar á það sem styrk að gefa horft framhjá eigin hagsmunum og metnaði ef mér finnst heildarhagsmunum betur borgið með öðrum hætti.“

Fléttar saman tveimur störfum

Samhliða störfum sínum á Alþingi Íslendinga hefur Haraldur rekið kúabú á jörð sinni Vestri-Reyni. Lilja Guðrún Eyþórsdóttir eiginkona hans hefur sinnt búinu allan þann tíma, en Haraldur eftir því sem aðstæður hafa leyft. „Oftar en ekki höfum við haft starfsfólk, lengst Ingiberg mág minn sem er nýlega hættur og var mjaltamaður hjá okkur.“ Blaðamaður spyr Harald hvort hann þekki ennþá allar kýrnar með nafni? „Já, ég geri það. Eyþór sonur okkar ræður nafngiftinni og ég næ að læra nöfnin! En án alls gríns þá hef ég aldrei hætt að sinna búinu. Mitt hlutverk þar snýr að fjósaverkum um helgar og á helgidögum og síðan ákveðnum verkefnum eins og að koma áburðinum og skítnum á túnin, ég sé um gjöfina, jarðræktina og heyskapinn. En eðli málsins samkvæmt mæti ég ekki alltaf í mjaltir. Undanfarið í þessu kóvidástandi hef ég getað mætt í morgunmjaltir því nefndarfundir hefjast ekki fyrr en klukkan níu á morgnana. En vissulega koma strembin tímabil þar sem hagsmunir beggja vinnuveitenda stangast á. Til dæmis hefur heyskapur stundum byrjað áður en þingstörfum lýkur á sumrin og það getur verið vesen. Af þessum sökum get ég viðurkennt að það hefur verið galli að ég hafi ekki verið eins sýnilegur í kjördæminu og æskilegt væri, því bústörfin taka sinn tíma. En ég er og verð áfram starfandi bóndi meðan ég sit á þingi. Mér finnst það styrkur að geta með þessu fyrirkomulagi verið nær atvinnulífinu. Fundið á eigin skinni hvar skóinn kreppir. Vissulega er maður stundum eftir annasamt sumar á öðrum stað en hinir þingmennirnir sem koma ferskir og sællegir af sólarströnd til starfa að hausti en ég kannski beint úr síðustu törninni í heyskap. Ég er trúlega, í orðsins fyllstu merkingu, jarðbundnari að áliðnu sumri.“

Lít á mig sem liðsmann

Haraldur segist líta á það sem forréttindi að starfa í félags- og stjórnmálum eins og hann hefur sinnt undanfarna tvo áratugi. „Það eru ekkert annað en forréttindi að fá tækifæri til að kynnast fólki, hvað það er að starfa og hugsa. Þingmaðurinn er alltaf í nánu sambandi við umbjóðendur sína. Því kynnist maður mörgu fólki sem er að fást við ólíkustu verkefni til sjávar og sveita. Ég get hins vegar alveg viðurkennt að það er stöðug áskorun fyrir mig að vera feiminn að eðlisfari og vera starfandi í stjórnmálum. Vonandi er það ekki augljóst en við feimni hef ég alltaf glímt. Kannski af þeim sökum er ég ekki mikið fyrir að hossa mér og mínum verðleikum, hverjir sem þeir annars eru. Vegna persónueinkenna minna lít ég á mig sem liðsmann sem hefur það hlutverk að leiða fólk saman, jafnvel úr ólíkum flokkum, þannig að farsælla lausna sé leitað. Er lítið fyrir að kaupa mér vinsældir öðruvísi en að láta verkin sjálf tala.“

Næg verkefni framundan

Aðspurður um verkefni ársins og næsta kjörtímabils vísar Haraldur meðal annars til ummæla Þórdísar Kolbrúnar á netfundum sem féllu á nýliðnum kjördæmadögum. „Hún sagði það verkefni stjórnmálamanna að virkja fólkið í Norðvesturkjördæmi í kröftuga viðspyrnu eftir kóvid. Mín skoðun er sú að hvort sem það er á sviði stóriðju, iðnaðar, landbúnaðar, sjávarútvegs, fiskeldis eða ferðaþjónustu, þá eru verkefnin mörg og tækifærin sömuleiðis. Við eigum t.d. ekki að vera með neinn heimóttarskap heldur leggja áherslu á að við séum að framleiða heilnæman og góðan mat úr úrvals hráefni. Fátt mun hafa meira að segja um lýðheilsu í framtíðinni en fæðan sem við setjum ofan í okkur. Menn sáu það eftir síðasta hrun og það næstsíðasta hversu mikilvægt það er að búa við þokkalega gott fæðuöryggi. Auk fæðuöryggis, höfum við góð fjarskipti, sterka aðra innviði eins og heilbrigðisþjónustu og góða skóla og marga þá kosti sem þjóðir í hinum vestræna heimi eru að sækjast eftir.  Samgöngumál eru reyndar pólitískt landsbyggðarkjördæmis númer eitt.“

Dugnaður skilar okkur lengst

Haraldur segir því ljóst að stjórnmálamenn þurfa að halda betur vöku sinni og hlúa að innlendri framleiðslu, þótt sumir kjósi að nota orðið þjóðremba til að tala slíkt niður. „Segja má að á sama tíma og áhrifa gallaðs tollasamnings um aðgang landbúnaðarvara á okkar markað komu fram, þá hrundi ferðaþjónustan. Það hitti því illa á að of mikið var flutt inn af matvælum og hér innanlands var færri munna að metta. Vörubirgðir safnast því upp innanlands. Við misstum sjónar á að gæta að grunnstoð landbúnaðar og hollrar matvælaframleiðslu og sjónarmið innflutningsaðila urðu fyrirferðar mikil í umræðunni. En það er unnið markvisst núna að framtíðarstefnu fyrir íslenskan landbúnað. Við eigum sem þjóð að hlúa að því sem við gerum vel og þannig verðum við áfram sterk á heimsvísu með okkar fisk, kjöt og aðrar úrvalsvörur. Fjárfesting í nýsköpunarumhverfinu, en fyrst og fremst dugnaður fólks, mun verða til að bæta hér aftur þjóðarhag,“ segir Haraldur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir