Nánast öllu húsnæði Borgarbyggðar í Brákarey verður lokað eftir morgundaginn

Vegna alvarlegra athugasemda eldvarnaeftirlits og byggingafulltrúa hefur Borgarbyggð ákveðið að loka um ótiltekinn tíma eftir morgundaginn nánast öllu húsnæði í eigu sveitarfélagsins í Brákarey. Um er að ræða starfsemi samtals fjórtán rekstraraðila; félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana í Brákarbraut 25 (fyrrum sláturhús og frystihús) og að hluta á Brákarbraut 27 (fyrrum fjárrétt). Rekstraðilum í húsinu var tilkynnt þetta á fundi sem haldinn var í Hjálmakletti fyrr í dag. Einungis Grímshúsið í Brákarey verður það húsnæði í eyjunni í eigu sveitarfélagsins sem ekki verður lokað.

Í kjölfar úttektar eldvarnaeftirlits og byggingafulltrúa á húsnæði Öldunnar í síðustu viku var ákveðið að framkvæma heildarúttekt á húsnæðinu Brákarbraut 25-27. Leigutökum var á fundinum í dag greint frá niðurstöðu úttektarinnar og að ljóst væri að sveitarfélagið ætti ekki annarra kosta völ en að stöðva starfsemi í húsnæðinu um óákveðinn tíma frá og með laugardeginum 13. febrúar. Áhaldahúsið verður þó áfram með sína starfsemi í húsinu tímabundið og mun sinna umsjón með húsnæðinu þar til annað verður ákveðið.

Í samtali við Skessuhorn sagði Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri að ekki væri um að ræða annað, í ljósi alvarlegra athugasemda vegna brunavarna í húsinu, en að grípa til lokunar á starfsemi í húsinu. Það sé gert til að tryggja öryggi og heilsu þeirra sem hingað til hafa haft starfsemi þar. „Þessi ákvörðun er okkur ekki léttvæg en við erum fyrst og remst að hugsa um öryggi þeirra aðila sem hafa notað aðstöðuna í húsnæðinu. Niðurstöður úr úttektunum hafa leitt í ljós að nauðsynlegt er að gera töluverðar úrbætur á húsnæðinu, m.t.t. til eldvarna- og öryggismála. Helstu athugasemdir varða flóttaleiðir, vatnsleka, brunahólfun, rafmagnsmál og leiðir til reyklosunar.“ Aðspurð segir Þórdís að engin ákvörðun liggi fyrir um næstu skref í málinu og framtíð húsanna. Byggðarráð Borgarbyggðar mun fjalla um málið á fundi sínum á fimmtudag í næstu viku og verður þá ákvörðun tekin um næstu skref. Til greina komi að selja húsin eða jafnvel að þau verði rifin.

Eins og fram kom í fréttum um síðustu helgi var tekin ákvörðun um að flytja hluta af starfsemi Öldunnar í sal á 6. hæð í Borgarbraut 65. Meðal annarra rekstraraðila sem nú verða án húsnæðis má nefna gríðarstórt safn Fornbílafjelags Borgarfjarðar og Raftanna, skotæfingasvæði, innanhúss aðstöðu Golfkúbbs Borgarness, trésmiðju og bátasmiðju. Þessir aðilar þurfa nú að leita nýrra leiða í húsnæðismálum sínum.

„Umferð um húsið er nú stranglega bannað, en leigutökum verður heimilt að geyma muni sína í húsnæðinu tímabundið og geta nálgast þá með heimild verkstjóra áhaldahússins í hvert skipti,“ segir Þórdís.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira