Breskir hermenn stilla sér upp til myndatöku á einum af hertrukkunum sem þeir komu með til landsins. Myndin er tekin við gamla barnaskólann við Vesturgötu. Ljósmyndasafn Akraness/ Árni Böðvarsson.

Þegar breski herinn hernam Akranes

Hernám Íslands er það tímabil kallað frá því þegar landið var hernumið af Bretum vorið 1940 og fram að því því þegar bandarískir hermenn yfirgáfu landið 1947, tveimur árum eftir lok stríðsins. Ekki kom til átaka vegna hernámsins enda voru Íslendingar hliðhollir bandamönnum og tóku þeim almennt vel. Þegar Bretar hernámu Ísland aðfararnótt 10. maí 1940 voru átta mánuðir frá því að heimsstyrjöldin síðari hófst. Um 2000 hermenn tóku þátt í hernáminu sem hófst í Reykjavík og áttu mikið fleiri eftir að bætast í þann hóp. Úr hópi fyrstu bresku hermannanna voru um fimmtíu þeirra sendir sama dag með Laxfossi, yfir Faxaflóann, og upp á Akranes. Komu þeir úr fimmta herfylki Vestur-Jórvíkurskíris sem fékk það hlutverk að tryggja Akranes. Íbúar í kauptúninu voru þá 1.840 talsins og eins og við mátti búast voru þetta stórtíðindi í þorpinu.

Bretarnir voru á Akranesi í innan við eitt ár og var hlutverk þeirra einkum að fylgjast með flugumferð inn á Hvalfjörð. Hermennirnir lögðu sig fram um að eiga gott samneyti við íbúa og er þeim borin vel sagan. Í frásögn sem birtist í Skessuhorni í dag er vera Breta á Akranesi 1940 rifjuð upp. Stuðst er við frásögn og skrif tveggja heimildamanna. Annars vegar við minningarbrot Sveins Sæmundssonar, sem var sautján ára vorið 1940, en varð síðar blaðamaður og fjölmiðlafulltrúi Flugleiða. Hann ritaði minningarbrot frá komu Bretanna sem birtist í Helgarpóstinum 1979. Sveinn flutti alfarinn frá Akranesi um svipað leiti og Bretarnir kvöddu haustið 1940. Hins vegar er stuðst við frásögn og minningarbrot Hafsteins Sigurbjörnssonar pípulagningameistara sem var níu ára gutti á Akranesi þegar herseta Breta stóð yfir. Fyrir tvo unga menn, annan níu en hinn sautján ára, var þetta mikið ævintýri eins og gefur að skilja.

Sjá ítarlega frásögn í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir