Glatt á hjalla. Ljósm. Golden age product company.

Auka samvinna í öldrunarstarfsemi á Vesturlandi

Í Velferðarstefnu Vesturlands sem kom út fyrir ári síðan voru málefni eldri borgara í brennidepli. Þar voru sett fram ýmis markmið sem eiga að stuðla að aukinni vellíðan eldri borgara og bæta þjónustu við þennan ört vaxandi hóp, m.a. með því að styrkja samstarf og samvinnu þeirra aðila sem koma að öldrunarþjónustu. Ljóst er að aldursamsetning þjóðarinnar er að breytast og að öldruðum mun fjölga hlutfallslega á næstu árum og áratugum. Því er það áskorun hvernig tekist er á við þessa þróun í samfélaginu.

Ein af forgangsaðgerðum velferðarstefnunnar var að stofnaður yrði samráðshópur um öldrunarþjónustu, skipaður fulltrúum frá sveitarfélögum, Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) og hjúkrunarheimilunum á Vesturlandi. Hópurinn tók til starfa síðasta haust. Hópurinn telur að á tímum sem nú eru, sé mikilvægt í upphafi að ráðast í verkefni til þess að styðja við og styrkja starfsfólk í öldrunargeiranum í landshlutanum. Því hefur verið gerður samningur við Símenntunarmiðstöð Vesturlands um að skipuleggja og standa fyrir fyrirlestrum og stuttum námskeið fyrir starfsfólk í öldrunarþjónustu. Gengið er út frá því að námskeiðin verði hnitmiðuð og aðgengileg, en með því að nýta tæknina geta þátttakendur setið námskeiðin í gegnum netið þegar þeim hentar. Námskeiðin munu hefjast nú í febrúar og verða kynnt frekar þegar nær dregur. Framundan eru fleiri verkefni og áherslur sem samráðshópurinn mun taka til umfjöllunar, segir í tilkynningu frá samráðshópi um öldrunarþjónustu á Vesturlandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir