Mörg smáfyrirtæki fengu kóvidstuðning

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru árið 2020 voru með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin, alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Stærstu einstöku styrkir stjórnvalda runnu engu að síður til stærstu og fjölmennustu fyrirtækjanna. „Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir,“ segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. „Alls hefur nú hátt í 70 milljörðum króna verið varið til stuðnings við fyrirtæki og hefur um fjórðungur fyrirtækja í öllum stærðarflokkum nýtt sér einhver úrræðanna. Mikill fjöldi mjög smárra rekstraraðila fékk ekki síst stuðning í lokunarstyrkjum þegar ýmis persónuleg þjónusta var stöðvuð. Þess má geta að um 86% fyrirtækja í landinu eru með tíu launamenn eða færri og þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum í landinu eru með færri en fimm starfsmenn.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir