Meirihluti Dalamanna fylgjandi vindorkuverum

Ríflega helmingur íbúa, eða 51,9% í Dalabyggð, er hlynntir því að sett verði upp vindorkuver í Dalabyggð. Þetta er niðurstaða könnunar sem Maskína lagði fyrir íbúa Dalabyggðar dagana 3. desember 2020 til 12. janúar 2021. Eins og Skessuhorn hefur áður greint frá er nú unnið að breytingum á skipulagi í Dalabyggð vegna fyrirhugaðra vindorkuvera í sveitarfélaginu, á Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Laxárdal. Könnunin var lögð fyrir alla íbúa sveitarfélagsins sem höfðu náð 18 ára aldri og voru með skráð símanúmer, sem alls voru 289 talsins. 219 íbúar svöruðu könnuninni sem gerir 75,7% svarhlutfall.

Eins og fram hefur komið er meirihluti íbúa hlynntur því að sett verði upp vindorkuver í sveitarfélaginu. Þá er athyglisvert að 58,5% íbúa sveitarfélagsins eru hlynntir vindorkuverum á Íslandi en sumir vilja þau ekki í sína heimabyggð, en 51,9% eru hlynntir vindorkuverum sem staðsett verða í Dalabyggð. Einnig vekur það athygli að nokkur munur er á svörum þeirra sem búa í Búðardal annars vegar og í dreifbýlinu hins vegar. Af íbúum í Búðardal eru 64,4% íbúa hlynntir því að sett verði upp vindorkuver í sveitarfélaginu en aðeins 45,5% þeirra sem búa í dreifbýlinu. Í Búðardal eru 16,4% andvígir vindorkuveri í sveitarfélaginu en 19,2% í meðallagi hlynntir. Í dreifbýlinu eru 35,7% andvígir vindorkuveri í sveitarfélaginu og 18,9% í meðallagi hlynntir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir