Leitin að tungumálaforða barna og unglinga

Í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins 21. febrúar næstkomandi hefur verkefnið „Íslandskort – leitin að tungumálaforðanum 2021“ verið sett af stað. Um er að ræða vitundarvakningu um þann fjársjóð sem felst í tungumálum okkar. Hugmyndin er að kortleggja öll tungumál töluð af börnum í leik- og grunnskólum landsins til þess að vekja jákvæða umræðu um tungumál og fjöltyngi í barna- og unglingahópum. Til þess hefur verið send út könnun á alla leik- og grunnskóla landsins og þarf að ljúka þátttöku á morgun, 8. febrúar. Verður afrakstur könnunarinnar birt gegnum gagnvirkt Íslandskort þar sem hægt verður að skoða og gleðjast yfir tungumálaforða á hverjum og einum stað.

„Mikilvægt atriði í verkefninu er að ýta undir veruleika þar sem börn og ungmenni finna að það að tjá sig á fleiri tungumálum en á íslensku getur aukið lífsgæði og tilfinningalíf þeirra og að þau finni fyrir stolti yfir að hafa fleiri en eitt tungumál á valdi sínu. Eins og við öll vitum eykur jákvæð sjálfsmynd námsgleði og -möguleika. Á sama tíma verður stuðlað að forvitni og áhuga á tungumálum almennt,“ segir í tilkynningu en að verkefninu standa Menntamiðja, Menntavísindastofnun HÍ, Menningarmót – Fljúgandi teppi, Tungumálatorg, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, og Móðurmál – samtök um tvítyngi.

Hægt er að fylgjast með verkefninu og fá fróðleiksmola um fjöltyngi og tungumál í fb-viðburðinum: “Alþjóðadagur móðurmálsins 2021 – Leitin að tungumálaforða barna og unglinga”.

Líkar þetta

Fleiri fréttir