Húsnæði Öldunnar í Brákarey hefur verið lokað

Að kröfu eldvarnareftirlits Borgarbyggðar var húsnæði Öldunnar, vinnu- og hæfingarstaðar í Brákarey í Borgarnesi, lokað síðastliðinn föstudag. Aldan hefur verið til húsa í fyrrum matsal sláturhússins. Gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við brunavarnir í húsinu m.a. sökum þess að vatn hefur komist í rafmagnstöflu og skortur er á flóttaleiðum ef eldsvoði kemur upp. Samkvæmt tilkynningu frá Borgarbyggð verður starfsemin nú flutt tímabundið á 6. hæð fjölbýlishússins við Borgarbraut 65. Þá verður dósamóttöku Öldunnar sömuleiðis lokað tímabundið þar til annað verður ákveðið.

Í kjölfar úttektarinnar á Öldunni ákvað eldvarnaeftirlitið að ráðast í úttekt á öllu húsnæði sveitarfélagsins í Brákarey, en þar er ýmis starfsemi til húsa, bæði í fyrrum fjárrétt og sláturhúsbyggingunni sjálfri. Niðurstaðna úr þeirri úttekt er að vænta fljótlega, samkvæmt tilkynningu Borgarbyggðar, en hugsanlega þarf að gera breytingar og munu starfsmenn sveitarfélagsins verða í samskiptum við þá leigjendur sem þar eru þegar niðurstöður liggja fyrir. „Ákvörðun um framtíðarhúsnæði Öldunnar mun liggja fyrir þegar nánari greiningarvinna hefur átt sér stað,“ segir í tilkynningu Borgarbyggðar síðastliðinn föstudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir