Byggingarframkvæmdir í gangi. Ljósm. frg.

Velta á fasteignamarkaði ekki verið meiri síðan fyrir hrun

Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman veltu á fasteignamarkaði eftir landshlutum fyrir árið 2020 samkvæmt þinglýstum gögnum. Fjöldi fasteigna á Vesturlandi sem skiptu um eigendur á árinu 2020 var 705 og hafa ekki verið líflegri viðskipti með fasteignir síðan fyrir hrun, eða árið 2007. Flestar seldar eignir á Vesturlandi voru í fjölbýli, eða 302. Seldar sérbýliseignir voru 234 og sumarhús voru 115. Fjöldi seldra fasteigna jókst um tæp 29% frá fyrra ári. Mest var aukningin í seldum eignum í fjölbýlishúsum en þeim fjölgaði um 50% á meðan seldum sérbýliseignum fjölgaði einungis um 12%. Heildarsöluverðmæti seldra fjölbýliseigna hækkaði um heil 75% á milli ára en sérbýliseigna um 16%. Þá fækkaði seldu atvinnuhúsnæði um tæp 36% á milli ára og má gera ráð fyrir að samdráttur í atvinnulífinu vegna Covid-19 hafi þar sitt að segja.

Eins og áður sagði náði fjöldi seldra fasteigna hámarki árið fyrir hrunið 2008. Síðan var nokkuð jafn vöxtur til ársins 2016. Þá tók við samdráttur sem stóð í þrjú ár. Á síðasta ári tók fjöldinn kipp og hefur ekki verið meiri síðan 2007, eins og áður segir. Almennt er lækkun vaxta talin skýringin á miklum fasteignaviðskiptum árið 2020.

Líkar þetta

Fleiri fréttir