Peningastefnunefnd.

Stýrivextir verða áfram óbreyttir

Peningastefnunefnd Seðlabankans gaf það út 3. febrúar síðastliðinn að stýrivextir verði áfram óbreyttir. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 0,75%. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá kemur fram að svo virðist sem innlend eftirspurn hafi verið þróttmeiri í fyrra en áður var áætlað og efnahagssamdrátturinn því minni en bankinn spáði í nóvember. Á þessu ári eru einnig horfur á að innlend eftirspurn vaxi meira en áður var spáð en á móti vega lakari útflutningshorfur. Þróun efnahagsmála mun þó markast af framvindu farsóttarinnar.

Verðbólga jókst í janúar þegar hún mældist 4,3%. Þar vega enn þungt áhrif gengislækkunar krónunnar á verð innfluttrar vöru. Á sama tíma hefur verð innlendrar vöru einnig hækkað sem endurspeglar að einhverju leyti þrótt innlendrar eftirspurnar. Þá hefur alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hækkað og við bætast óhagstæð grunnáhrif frá janúar í fyrra. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði um 3,9% á fyrsta fjórðungi ársins en að hún hjaðni tiltölulega hratt er líður á árið enda töluverður slaki til staðar í þjóðarbúinu og gengi krónunnar hefur hækkað undanfarna mánuði. „Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma,“ segir í yfirlýsingu frá stofnuninni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir