Slaka á samkomutakmörkunum á mánudaginn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um tilslakanir á samkomutakmörkunum. Tillögurnar taka gildi á mánudaginn, 8. febrúar, og gilda til og með 3. mars. Almennar fjöldatakmarkanir verða áfram 20 manns en undantekningar verða rýmri en áður. Enn gilda reglur um tveggja metra reglu og grímuskyldu. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanþegin ákvæðum um fjöldatakmarkanir, nálægðarmörk og grímuskyldu.

Skemmtistaðir og krár mega opna að nýju og einnig spilasalir og spilakassar. Veitingastaðir með áfengisveitingar, þar með talin veitingahús, kaffihús, krár og skemmtistaðir, mega hafa opið til kl. 22:00 og það sama gildir um spilasali og spilakassa. Ekki er heimilt að hleypa nýjum gestum að á veitingastöðum eftir kl. 21:00 og veitingar skulu aðeins afgreiddar gestum í sæti. Fjöldatakmörkun gesta í sviðslistum fer úr 100 í 150 manns og hámarksfjöldi í verslunum og á söfnum verður 150 manns að uppfylltum skilyrðum um fermetrafjölda. Leyfilegt verður að opna að nýju búningsaðstöðu í heilsu- og líkamsræktarstöðvum. Æfingar í tækjasal verða heimilaðar með þeim skilyrðum að ekki séu fleiri en 20 manns í hverju rými og skulu þeir skrá þátttöku sína fyrirfram. Leyfilegur hámarksfjöldi gesta er helmingur af þeim fjölda sem kveðið er á um í starfsleyfi. Allur búnaður skal vera sótthreinsaður eftir hverja notkun og tryggt að einstaklingar fari ekki á milli rýma. Trú- og lífsskoðunarfélög fá undantekningu á 20 manna fjöldatakmörkunum og mega vera 150 fullorðnir einstaklingar við athafnir en virða þarf tveggja metra regluna og grímuskyldu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir