Magnús, matreiðslumeistari og eigandi Kræsinga ehf., fyllir á þorratrog. Ljósm. glh.

Þorravertíðin lítil sem engin þetta árið

Rúmar tvær vikur eru liðnar af Þorra. Jafnan þegar þegar þessi árstími gengur í garð fylgja honum veisluhöld og mannamót þar sem glaðst er yfir sneisafullum trogum af þjóðlegum krásum. Að blóta Þorra er þjóðlegur siður, skemmtilegur og umfram allt, rammíslensk hefð. Á óhefðbundnum tímum í samfélaginu, út af dálitlu, þarf að hugsa út fyrir kassann. Magnús Nielsson Hansen matreiðslumeistari og eigandi Kræsinga ehf. í Borgarnesi hefur fundið verulega fyrir þorrablótaleysinu. „Hún lítur illa út vertíðin. Það verða engin þorrablót en við höfum verið stór í þeim,“ segir Magnús í samtali við Skessuhorn. „Að vísu er fólk duglegt að panta bakka fyrir 10-12 manns og alveg niður í tvo. Tveir geta pantað þorratrog frá okkur,“ bætir hann við.

Þorravertíðin hefur yfirleitt verið háannatími hjá Magnúsi í Kræsingum og starfsfólki hans. „Við erum núna kannski með svona 3%-5% af því sem við erum yfirleitt með á þessum tíma. Við vorum nánast með öll blót í sveitarfélaginu. Keyrðum meira að segja í Húnavatnssýsluna, Blönduós auk þess sem við fórum austur fyrir fjall, alla leið í Vík í Mýrdal. Við höfum mikið verið að selja mat og músík í einum pakka. Það hefur verið vinsælt hjá okkur og höfum við verið að fara með mat og flutt tónlist, það var markaðssetningin okkar,“ útskýrir hann en auk þess að framreiða dýrindis þorratrog þá er hann einnig í hljómsveit og slær oftar en ekki tvær flugur í einu höggi þegar hann skaffar bæði veisluþjónustu og skemmtatriði.

„Það sem er að bjarga okkur í þessu ástandi eru okkar fastakúnnar sem við þjónustum eins og til dæmis leikskólarnir í héraðinu. Við keyrum líka Borgarfjörðinn með vörur auk þess sem við förum út á Snæfellsnes einu sinni í viku. En hvað þorramat varðar þá er um að gera að hafa samband við okkur og panta þorramat. Eins og ég segi þá hefur verið pantað fyrir allt niður í tvo einstaklinga, svo það er um að gera að hafa samband og fá sinn þorramat,“ segir Magnús sem þrátt fyrir allt er léttur í bragði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir