Hér slaka þær Hildur Björg Kjartansdóttir og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir á fyrir leikina í Ljubljana. Ljósm. KKÍ

Ísland mætir Grikklandi í kvöld

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik mætir Grikkjum í fyrri leik sínum í febrúar-landsliðsglugganum sem fram fer í Ljubljana í Slóveníu í kvöld. Ísland spilar í A riðli ásamt Slóveníu, Grikklandi og Búlgaríu en Slóvenía er nú þegar búið að tryggja sér átta stig og fyrsta sæti riðilsins og þar með farseðil á EuroBasket Women‘s 2021. Ísland er nú með fjögur stig og Grikkland og Búlgaría sex stig hvort. Það land sem hafnar í öðru sæti riðilsins á möguleika á að komast á EM í sumar þar sem fimm bestu liðin í öðru sæti í riðlakeppnunum, í níu riðlum, komast áfram. „Okkar hópur er klár í slaginn og leikmenn eru heilir og spenntir að spila í kvöld,“ segir á vef KKÍ. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV2 og hefst kl 18:15.

Seinni leikur Íslands í þessum glugga er gegn heimastúlkum frá Slóveníu á laugardaginn og verður leikurinn sýndur á RÚV.

Líkar þetta

Fleiri fréttir