F.v. Arnar Már Björgvinsson og Arnar Bergþórsson en þeir kynntu skýrslu sína um smávirkjanir á Vesturlandi. Ljósm. úr safni/mm

Tækifæri í smávirkjunum á Vesturlandi

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) stóðu í morgun fyrir opnum Teams-fundi þar sem kynntir voru möguleikar í uppbyggingu smávirkjana á Vesturlandi.  Á fundinum kynntu þeir Arnar Bergþórsson og Arnar Már Björgvinsson frá fyrirtækinu Arnarlæk skýrslu sem þeir unnu um smávirkjanir á Vesturlandi. Skýrslan gefur góða mynd af virkjanamöguleikum í landshlutanum. Skýrslan er nokkuð yfirgripsmikil er farið er í henni yfir frummat á 70 álitlegum valkostum fyrir smávirkjanir á Vesturland en úttektin er almenn en ekki tæmandi. Í viðauka við skýrsluna er gerð grein fyrir flokkun þessara 70 virkjanakosta í hagkvæmniflokka og í hvaða flokk hver virkjunarkostur fellur.

Þeir félagar fóru í kynningunni yfir hvernig vali og mati á virkjanakosta er háttað svo og hvernig vatnafar svæða og mat á rennsli hefur áhrif á matið. Fram kom meðal annars að Orkustofnun gerir kröfu um að lágmarki tveggja ára rennslismælingar liggi fyrir áður en leyfi er veitt. Í kynningunni var farið yfir hvernig undirbúningi þarf að vera háttað fyrir uppbyggingu smávirkjana en hann getur tekið nokkur ár. Einnig var fjallað um skrefin sem þarf að taka í undirbúningsferlinu, svo sem samninga við vatnsréttarhafa, rennslismælingar sem þurfa að ná yfir tvö ár og fleira. Þá fóru Arnar og Arnar yfir möguleika smávirkjana til tengingar við raforkukerfið.

Á Vesturlandi eru nú í rekstri tíu smávirkjanir sem tengdar eru dreifikerfi RARIK og er uppsett afl þeirra samtals um 16 megavött og árs orkuvinnsla um 87 gígavattsstundir. Þær eru mikilvægar varaaflstöðvar og skipta því raunverulegu máli fyrir raforkukerfið. Kostnaður við tengingu smávirkjana við raforkukerfið getur verið mjög mismunandi eftir stærð virkjana. Stofnkostnaður lækkar hlutfallslega við stærri virkjanir en kostnaður við tengingu við raforkukerfið vegur þar upp á móti.

Fram kom í kynningu þeirra nafnanna að skipulagsmál vegna virkjana, hönnun og önnur stjórnsýsla eru flókin og þung í vöfum og í umræðum eftir kynninguna mátti heyra að fundarmenn vildu einfalda og stytta regluverkið og ferlið og að sveitarfélög og hið opinbera þurfi að taka sig verulega á í þeim efnum.

Sjá skýrslu Arnarlækjar í heild hér að neðan:

thumbnail of Arnarlaekur-Smavirkjanir-a-Vesturlandi-Frumuttekt-valkosta.-Utgafa-2-2

Líkar þetta

Fleiri fréttir