Sveitarfélög á Vesturlandi andvíg stofnun Miðhálendisþjóðgarðs

Í desember síðastliðnum mælti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fyrir frumvarpi á Alþingi um Miðhálendisþjóðgarð. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðlendur í sameign þjóðarinnar innan miðhálendislínu verði gerðar að þjóðgarði, en á miðhálendi landsins eru ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu auk náttúru- og menningarminja. Kveðið er á um stofnun miðhálendisþjóðgarðs í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en mætir engu að síður andstöðu nokkurra stjórnarþingmanna. Sömuleiðis gætir mikillar andstöðu við málið víða af landsbyggðinni.

Í kjölfar þess að mælt var fyrir frumvarpinu var í desember óskað eftir umsögnum um það heiman úr héraði. Áberandi andstaða sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og sömuleiðis á vestanverðu Suðurlandi. Þá mætir stofnun Miðhálendisþjóðgarðs afgerandi andstöðu á Vesturlandi ef marka má umsögn sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sendi inn 1. febrúar sl. Þar segir m.a: „Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi leggja þunga áherslu á að um stofnun þjóðgarðs ríki almenn sátt við þau sveitarfélög og íbúa sem hagsmuna hafa að gæta við stofnun þjóðgarða. Af þeim umsögnum og ályktunum sem fram hafa komið, m.a. frá sveitarfélögum, er ljóst að nægjanleg sátt hafi ekki myndast um málið. Meðan svo er telur stjórn SSV ótímabært að stofna til Hálendisþjóðgarðs og hvetur því Alþingi til þess að gefa málinu lengri tíma þannig að sátt geti náðst um framtíðarskipulag verndunar hálendisins.“ Í svipaðan streng taka til dæmis Stykkishólmsbær og Dalabyggð sem segja í umsögnum sínum að ekki sé tímabært að leggja fram frumvarpið að svo komnu máli. Í Borgarbyggð er meirihluti sveitarstjórnar hlutlaus gagnvart hálendisþjóðgarði en minnihlutinn andvígur stofnun hans.

Líkar þetta

Fleiri fréttir