Sundabraut mögulega tilbúin árið 2029

Sundabrú yrði um 14 milljörðum ódýrari en Sundagöng. Kostnaður við Sundabrú er metinn 44 milljarðar króna en við Sundagöng 58 milljarðar. Áætlaður heildarkostnaður við Sundabraut á milli Sæbrautar og Kjalarness miðað við Sundabrú er 69 milljarðar. Ef ákvörðun verður tekin fljótlega um að hefja vinnu við verkefnið má ætla að Sundabraut gæti verið tilbúin árið 2029. Þetta er meðal niðurstaðna starfshóps á vegum Vegagerðarinnar sem var falið að meta tvo valkosti um legu Sundabrautar. Fulltrúar Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu áttu einnig fulltrúa í starfshópnum. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hélt í dag.

Í máli ráðherra kom fram að niðurstöðurnar staðfesti sannfæringu hans um að Sundabraut bæti samgöngur, bæði fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Þá sagði Sigurður Ingi: „Það er sérstaklega ánægjulegt að Sundabrú muni geta eflt almenningssamgöngur og styðja við fjölbreyttan ferðamáta. Með því að stytta ferðatíma og dreifa umferð bætum við lífsgæði fólks.“ Þá ræddi ráðherra um öryggishlutverk Sundabrautar fyrir höfuðborgarsvæðið. Að mati ráðherrans væri í raun ekkert nú því til fyrirstöðu að hefja vinnu við hönnun og í framhaldinu vinnu við Sundabraut. Nefndi hann fjögurra ára hönnunartíma og fjögurra til fimm ára framkvæmdatíma og að brúin gæti verið tilbúin árið 2029 til 2030.

Meðal helstu niðurstaðna starfshópsins eru að gerð er tillaga um Sundabrú sem verður 1.172 metrar að lengd með 14 höfum. Brúin væri með fjórum akgreinum auk sérstakrar göngu- og hjólaleiðar. Hæð brúarinnar væri mitt á milli þeirra kosta sem áður hafa verið ræddir, lágbrúar og hábrúar, en siglingarhæð undir slíka brú yrði 30 metrar í stað 50 metra undir hábrú. Siglingarrenna undir brúnna yrði 100 metrar á breidd. Brúin rís 35 metra yfir sjávarflötinn. Telur starfshópurinn að slík brú hefði einhver en ásættanleg áhrif á hafnarstarfsemina innan brúar.

Í starfshópnum sátu Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, en hann var formaður hópsins, Bryndís Friðriksdóttir svæðisstjóri höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar, Gísli Gíslason fyrrverandi hafnarstjóri tilnefndur af Faxaflóahöfnum, Jón Kjartan Ágústsson svæðisskipulagsstjóri tilnefndur af Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Þorsteinn R. Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, fyrir hönd borgarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir