Bakhlið Bifreiðaverkstæðis Guðjóns og Ólafs eftir flóðið í janúar 1984.

Mesta sjávarflóðið á Akranesi rifjað upp

Um þessar mundir eru 37 ár frá einu mesta sjávarflóði sem orðið hefur á Akranesi. Flóðið varð að morgni fimmtudagsins 5. janúar 1984. Þá gekk sjór á land og olli gríðarlegu tjóni á húsum og munum. Alls var tilkynnt um 33 tjón og nam tjónið 31,4 milljón króna sem samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar jafngildir tæpum 380 milljónum króna í dag. Sjónarvottar báru að aðalbrotið sem gekk á land hafi verið á bilinu 10 til 12 metra hátt miðað við hvar efsti hluti þess skall á byggingum og hlýtur að teljast mesta mildi að ekki varð manntjón. Mörg mannvirki á Akranesi skemmdust. Hafnargarðurinn laskaðist og miklar skemmdir urðu á húsum HB og Co. Í húsi Hafarnarins urðu talsverðar skemmdir er sjór flæddi inn. Verulegar skemmdir urðu á Fiskverkun Þórðar Óskarssonar og á bílasprautunarverkstæði skammt frá. Húsnæði Bílaverkstæðis Guðjóns og Ólafs skemmdist verulega auk bifreiða sem þar voru inni. Mest tjón varð þó á Vélaleigu Birgis Hannessonar en í frétt Morgunblaðsins frá þessum tíma segir að fyrtækið hafi nánast verið afmáð af yfirborði jarðar eftir sjóganginn auk þess sem ellefu tonna bátur sem stóð við húsið barst um 30 metra vegalengd inn í land og þegar flóðið stóð sem hæst flaut hann þar. Birgir Jónsson sem rak fiskverkun við Ægisbraut varð fyrir miklu tjóni og auk þessa urðu skemmdir á ýmsum fyrirtækjum og íbúðarhúsum bæði á norðanverðu og sunnanverðu Akranesi.

Í Skessuhorni sem kom út í dag rifja þeir Guðjón Pétursson og Ólafur Óskarsson verkstæðiseigendur upp þeirra reynslu af flóðinu 1984. Verkstæðishús þeirra við Ægisbraut skemmdist mikið auk bíla og tækja innanhúss. 

Líkar þetta

Fleiri fréttir