Hér er að hefjast kennslustund. Sævar Ari Finnbogason kennari lengst til hægri. Þrír af fjórum staðnemendum eru viðstaddir, en flestir nemendur eru heima hjá sér í fjarnámi. Leifur Finnbogason stendur fjær. Ljósm. mm.

Fjörutíu nemendur innritaðir í nýja háskólagátt í ensku

Við Háskólann á Bifröst fór í janúar af stað nýtt nám í háskólagátt en því lýkur í byrjun ágúst. Námið er ætlað fólki af erlendum uppruna sem búsett er hér á landi og eru fjörutíu einstaklingar innritaðir nú í upphafi. Uppruni fólksins er víða, en nemendur koma úr öllum heimsálfum, utan Eyjaálfu. Fjórir af fjörutíu stunda námið í staðnámi á Bifröst, en aðrir eru í fjarnámi en sækja vinnuhelgar á Bifröst. Um er að ræða spegilmynd sambærilegs náms sem fer fram á íslensku, sambærilegt að öðru leyti en því að kennt verður á ensku, en áhersla lögð á íslenskunám. Í stað hefðbundinna íslenskuáfanga taka nemendur íslensku sem annað tungumál og í stað dönskuáfanga geta nemendur valið um að bæta við sig áfanga í ensku- og/eða áfanga í íslensku sem öðru máli. Námstilhögun er sniðin að átaki stjórnvalda; „Nám er tækifæri“ en markmið Vinnumálastofnunar og fleiri er að koma til móts við atvinnuleitendur og hvetja þá til þess að sækja sér formlega menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Gríðarlegt atvinnuleysi er nú í landinu, en mest er það í hópi fólks af erlendu bergi brotið sem margt starfaði við ferðaþjónustu fyrir hrun hennar vegna kóvid. Leifur Finnbogason heldur utan um háskólagátt á ensku á Bifröst. Sjálfur lauk hann BA prófi í Hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði (HHS) í staðnámi frá skólanum síðastliðið vor og réðist til starfa við skólann í haust. Leifur á rætur sínar á Vesturlandi, fæddur og uppalinn í Hítardal á Mýrum. Blaðamaður Skessuhorns ræddi við Leif um þetta nýja námsframboð sem mun án nokkurs vafa opna dyr fólk af erlendum uppruna sem búsett er hér á landi og vill hvergi annarsstaðar búa.

Sjá Skessuhorn sem kom út í dag

Líkar þetta

Fleiri fréttir