Baulunni lokað tímabundið

Versluninni og veitingastaðnum Baulunni í Borgarfirði var nú um mánaðamótin lokað tímabundið. Skeljungur keypti staðinn í byrjun síðasta árs og var markmiðið með kaupunum að þétta stöðvanet Orkunnar um landið, eins og fram kom í tilkynningu. Að sögn Karenar Rúnarsdóttur, framkvæmdastjóra einstaklingssviðs hjá Skeljungi, er stefnt að opnun staðarins að nýju með vorinu þegar umferð fer að aukast aftur. Karen segir ekki liggja fyrir hvort fyrirtækið muni sjálft reka staðinn eftir enduropnun eða bjóða áhugasömum rekstraraðila að taka við. Áfram verður hægt að fá eldsneyti við Bauluna þrátt fyrir lokun verslunarinnar. Næstu mánuðina verður að sögn Karenar unnið að ýmsum endurbótum og lagfæringum í og við húsið. Meðal annars verður leiksvæðið betrumbætt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir