Lásu inn 790 þúsund setningar á einni viku

Lestrarkeppni Samróms hófst 18. janúar og stóð til og með 25. janúar. Keppnin var á milli grunnskóla í landinu þar sem keppst var um að lesa sem flestar setningar inn í Samróm. Verkefnið er hluti af samstarfsverkefni til að gera íslensku gjaldgenga í tölvum og tækjum. Grunnskólakeppnin er haldin til að safna sem flestum röddum sem verða notaðar til að kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku. Allir gátu tekið þátt og lesið inn fyrir sinn skóla.

Alls voru lesnar inn 790 þúsund setningr frá 6.172 einstaklingum fyrir 136 skóla. Skólum var skipt í þrjá flokka; A, B og C og voru veitt verðlaun fyrir fyrsta sæti í hverjum flokki auk þess að veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur. Sá skóli sem náði bestum árangri á Vesturlandi var Grunnskóli Grundarfjarðar sem varð í þriðja sæti í sínum flokki og níunda sæti á landsvísu. 222 lásu fyrir Grunnskóla Grundarfjarðar alls 24.471 setningar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir