Búðardalur. Ljósm. sm.

Kynntu sex sameiningarvalkosti fyrir Dalabyggð

Íbúakynning um valkosti Dalabyggðar til sameiningu við önnur sveitarfélög var haldinn í gær. Dalabyggð er nú þegar í töluverðu samstarfi við nágrannasveitarfélögin með ýmsa þjónustu. En stjórnvöld vilja setja 1.000 íbúa lágmarksíbúafjölda í hverju sveitarfélagi 2026 og því ljóst að fámennari sveitarfélög þyrftu að sameinast gangi tillögurnar eftir. Vegna þessa var ákveðið í Dalabyggð að fá RR ráðgjöf til að greina hvaða sameiningarvalkostir þykja koma til greina fyrir sveitarfélagið og hvaða kosti og galla þeir valkostir hafa fyrir það. Kynningarfundurinn fór fram í Búðardal en var rafrænn. Hægt er að skoða streymi frá honum á Youtube rás Dalabyggðar. Greindir hafa verið sex sameiningarvalkostir fyrir Dalabyggð sem hver um sig fæli í sér misjafnlega fjölmennar sameiningar og ólíka kosti:

 

Dalabyggð, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Skorradalshreppur: Þetta væri fjölmennasta sveitarfélagið af þessum sex valkostum þar sem íbúafjöldi yrði 4.655. Nokkur hefð er fyrir samstarfi þessara sveitarfélaga og íbúaþróun þeirra er jákvæð. Góður rekstrarafgangur er hjá þessum sveitarfélögum, fjárfestingageta væri góð og skuldahlutfall um 87%. Þetta eru allt matvælaframleiðsluhéruð, samgöngur eru góðar og vöxtur í ferðaþjónustu. Í þessu sameinaða sveitarfélagi væru háskólar og framhaldsskóli.

Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær. Helgafellssveit, Reykhólahreppur og Stykkishólmur: Íbúafjöldi yrði 3.177. Hefð er fyrir samstarfi þessara sveitarfélaga og þau hafa sameiginlega hagsmuni í umhverfis- og skipulagsmálum. Íbúaþróun hefur verið í jafnvægi undanfarin ár. Rekstrarafgangur yrði góður, fjárfestingargeta ágæt en skuldahlutfall yrði um 106% en sveitarfélög stefna yfirleitt að hafa það nokkuð undir 100%. Atvinnulíf væri fjölbreyttara og töluverður vöxtur í ferðaþjónustu auk þess sem það er framhaldsskóli á þessu svæði. En samgöngur milli þessara sveitarfélaga eru ekki góðar og það þyrfti að bæta veginn um Skógarstönd verði þessi sameining að veruleika.

Dalabyggð, Helgafellssveit og Stykkishólmur: Íbúafjöldi yrði 1.936. Hefð er fyrir samstarfi þessara sveitarfélaga og þau hafa sameiginlega hagsmuni í umhverfis- og skipulagsmálum. Íbúaþróun hefur verið jákvæð og rekstrarafgangur þessara sveitarfélaga góður. Fjárfestingageta þeirra væri ágæt en skuldahlutfall um 109%. Hjá þessum sveitarfélögum er fjölbreytt atvinnulíf og vöxtur í ferðaþjónustu en samgöngur um Skógarströnd þyrfti að bæta.

Dalabyggð, Strandir og Reykhólar: Íbúafjöldi yrði 1.523. Mikil hefð er fyrir samstarfi þessara sveitarfélaga og eiga þau sameiginlega hagsmuni í umhverfis- og skipulagsmálum. Þessi sveitarfélög eru búin að vinna saman að svæðisskipulagi sem á einungis eftir að koma í framkvæmd. En í þessu sameinaða sveitarfélagi yrðu vegalendir mjög miklar og samgöngur erfiðar. Íbúaþróun er neikvæð, rekstur mjög viðkvæmur og vöxtur í ferðaþjónustu er hægur. Fjárfestingargeta er lítil því rekstur þessara sveitarfélaga er ekki að skila miklu og skuldahlutfall yrði um 71%. Í þessari tillögu er reksturinn bestur í Dalabyggð en kosturinn við það væri að Dalabyggð væri þá í lykilstöðu að vera með mestu þjónustuna. Í kynningunni kom fam að þessi sameining þyrfti öfluga innspýtingu frá ríkinu í bæði atvinnumál og samgöngum til að verða öflugt sveitarfélag.

Dalabyggð, Strandir, Reykhólar og Húnaþing: Íbúafjöldi yrði 2.704. Þetta er svipuð sameining og valkosturinn á undan nema Húnaþing myndi bætast við, en það er ágætlega rekið sveitarfélag. Það myndi aðeins bæta fjárfestingargetuna og skuldahlutfallið færi niður í 64%. Íbúaþróun væri þó enn neikvæð, hægur vöxtur í ferðaþjónustu og samgöngur ekki góðar og vegalengdir miklar. Bæta þyrfti samgöngur um Hrútafjörð og norður um Strandir.

Dalabyggð og Húnaþing: Íbúafjöldi yrði 1.854. Lítil hefð er fyrir samstarfi þessara sveitarfélaga en þau eiga þó sameiginlega hagsmuni í umhverfis- og skipulagsmálum, t.d. er varðar vindorku. Íbúaþróun hefur verið í jafnvægi. Rekstrarafgangur þessara sveitarfélaga er góður, fjárfestingargeta góð og skuldahlutfall væri um 60%. Þessi sveitarfélög stunda bæði matvælaframleiðslu en hægur vöxtur er í ferðaþjónustu en þar liggja líka sameiginlegir hagsmunir. Verði að þessari sameiningu þyrfti að bæta samgöngur í Hrútafjörð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir