Erum langt frá markmiði um jafnara kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja

Á síðasta ári voru konur einungis ráðnar framkvæmdastjórar fyrirtækja hér á landi í fjórðungi tilvika. Stórátak þarf til að markmið Jafnvægisvogarinnar náist. Þetta er meðal þess sem lesa má í greiningu Creditinfo á ráðningum í framkvæmdastjórastöður fyrirtækja hér á landi síðustu ár. „Að óbreyttu nást ekki markmið Jafnvægisvogarinnar um að árið 2027 verða hlutfall á milli kynja að minnsta kosti 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.“

Greiningin leiðir í ljós að á nýliðnu ári voru konur einungis ráðnar sem framkvæmdastjórar í um 25% tilvika. Það er þó töluvert yfir meðaltali síðustu fimm ára sem er 20%. „Núna er staðan sú að sé horft til virkra fyrirtækja eru konur framkvæmdastjórar í um 18% þeirra, en einungis í um 13% fyrirtækja ef horft er á rúmlega 1.000 tekjuhæstu fyrirtækin.

Greiningin leiðir ýmislegt forvitnilegt í ljós, svo sem að líklegra er að kona taki við starfi framkvæmdastjóra hafi forveri hennar í starfi einnig verið kona. Eins, ef horft er til framkvæmdastjóraskipta síðustu fimm ár, þá er kona líklegri til að taka við stöðunni af karli í fyrirtækjum í sérfræðivinnu (29%), en til dæmis í fjármála-, vátrygginga- og fasteignastarfsemi (18%). Í ferðaþjónustu og afþreyingu er hlutfallið 21%, 10% meðal framleiðslufyrirtækja og einungis 3% í landbúnaði, skógrækt og sjávarútvegi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir