Við álver Norðuráls á Grundartanga. Ljósm. úr safni/ kgk.

Trúnaði létt af raforkusamningi Norðuráls og OR

Norðurál og Orkuveita Reykjavíkur hafa náð samkomulagi um að aflétta trúnaði um rafmagnssölusamning fyrirtækjanna frá árinu 2008. Samningurinn, sem upphaflega var gerður vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík, er sá fyrsti af slíkum samningum sem er birtur opinberlega. Rafmagnið hefur verið notað í álveri Norðuráls á Grundartanga.

OR fór þess á leit við Norðurál árið 2010 að trúnaði af rafmagnssölusamningum yrði aflétt. Norðurál féllst ekki á það á þeim forsendum að það hefði skaðleg áhrif á samkeppni ef rafmagnsverðið yrði gert opinbert. Norðurál bar fram samsvarandi ósk til Orkuveitunnar í nóvember síðastliðnum og á fundi stjórnar OR í sama mánuði var einhugur um að verða við þeirri ósk. Samið var um viðauka við upphaflega samninginn þar sem trúnaðarákvæði hans er fellt niður.

Í tilkynningum sem birtar eru á vefjum fyrirtækjanna kemur fram að Bjarni Bjarnason, forstjóri OR og Gunnar Guðlaugsson forstjóri Norðuráls séu báðir sáttir við samkomulagið.

Bjarni segir á vef OR: „Þetta er fyrsta skrefið af vonandi fleirum í þá átt að opinber umræða um þessa stóru, gömlu samninga sé byggð á staðreyndum en ekki getgátum eða flökkusögum.“ Hann heldur áfram: „Það hefur reynst OR óhagstætt hvernig álverð hefur þróast. Einnig er flutningsgjald innifalið í samningsverðinu við Norðurál þannig að OR hefur borið alla áhættu af þróun flutningskostnaðar. Svona samningur yrði ekki gerður í dag,“

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls segir í fréttatilkynninu: „Við fögnum því að Orkuveita Reykjavíkur hafi tekið svona vel í umleitanir okkar um að aflétta trúnaði af samningnum. Þetta er mikilvægt skref í að auka gagnsæi á íslenskum raforkumarkaði, sem við teljum mjög til bóta fyrir bæði kaupendur og seljendur raforku, og jafnframt fyrir íslenskan almenning.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir