Haiden Denise Palmer var stigahæst Snæfellskvenna í tapi gegn Fjölni. Ljósm. af Facebook síðu Snæfells

Snæfell tapaði fyrir Fjölni á heimavelli

Snæfell tapaði með átta stigum gegn Fjölni þegar liðin mættust í Stykkishólmi í Domino‘s deild kvenna í körfubolta í gær. Fjölniskonur komu sterkar til leiks og voru komnar fjórum stigum yfir í lok fyrsta leikhluta, 22-18. Ekkert markvert átti sér stað í öðrum leikhluta og Fjölnir hélt áfram að leiða og þegar haldið var til búningsklefa í hléinu voru þær með 40 stig gegn 32. Eftir hléið lifnaði aðeins meira við Snæfellskonum og þær náðu að saxa vel á forskot gestanna en komust aldrei nær þeim en tvö stig, 48-46 og þegar leiknum lauk var staðan 74-66 fyrir Fjölni.

Í liði Snæfells var Haiden Denise Palmer með 15 stig, níu stoðsendingar og sex fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði einnig 15 stig auk þess að taka sex fráköst, Emese Vida skoraði ellefu stig og tók 17 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði einnig ellefu stig, Kamilé Berenyté var með sex stig, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði fimm stig og Dagný Inga Magnúsdóttir skoraði þrjú stig.

Ariel Hearn átti góðan leik með Fjölni og skoraði 30 stig, tók 13 fráköst og gaf sex stoðsendingar, Fanney Ragnarsdóttir skoraði 14 stig, Lina Pikciuté og Margrét Ósk Einarsdóttir skoruðu átta stig hvor, Stefanía Ósk Ólafsdóttir skoraði fimm stig, Sara Carina Vaz Djassi skoraði fjögur stig og tók átta fráköst, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir skoraði þrjú stig og Heiða Hlín Björnsdóttir skoraði tvö.

Snæfell er nú í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig, eins og Breiðablik. Næsti leikur Snæfells er gegn Keflavík í Stykkishólmi 17. febrúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir