Slæging í gangi. Ljósm. af.

Fiskmarkaður Snæfellsbæjar fluttur í nýtt húsnæði

Fiskmarkaður Snæfellbæjar í Ólafsvík flutti starfsemi sína úr Bankastræti rétt fyrir áramót og í 1.600 fermetra húsnæði sem áður hýsti Fiskiðjuna Bylgju. Andri Steinn Benediktsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir í samtali við Skessuhorn að gamla húnæðið sem þeir voru í hafi fyrir löngu verið orðið sprungið utan af starfseminni. „Nýja húsnæðið býður upp á mikið betra flæði frá móttöku, flokkun, vigtun, slægingu og afgreiðslu í bíla,“ segir Andri og bætir við að mikill mundur sé einnig á aðstöðu starfsfólks. „Við erum auk þess nær hafnarsvæðinu og helmingi styttra er að keyra með aflann í hús en áður var.“

Að sögn Andra seldi Fiskmarkaður Snæfellsbæjar alls 19.442 tonn árið 2020 en árið á undan voru það tæplega 15.900 tonn. „Svo þetta er ágætis aukning milli ára,“ segir Andri. „Starfsstöðvar okkar eru auk Ólafsvíkur á Akranesi, Tálknafirði, Sauðárkróki, Skagaströnd og Grundarfirði en þar seldum við 5400 tonn á síðasta ári. Hjá okkur eru 17 starfsmenn auk lausafólks á vertíð í löndun, vigtun, flokkun og slægingu. Einnig fáum við verktaka sem sjá m.a. um löndun á öðrum höfnum. Magni Jens Aðalsteinsson er verkstjóri á markaðinum og Daniel Wasiewicz sér um slæginguna.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir