Brákarhlíð í Borgarnesi. Ljósm. Skessuhorn/ Ómar Örn Ragnarsson

Fimmtíu ár frá því Brákarhlíð hóf starfssemi

Næstkomandi sunnudag, 31. janúar 2021, verða liðin 50 ár frá vígsludegi Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi, nú Brákahlíð. Afmælisins og starfseminni voru gerð ítarleg skil í afmælisblaði sem Brákarhlíð gaf út í október síðastliðnum í samstarfi við Skessuhorn. Ekki verður um nein teljandi hátíðarhöld að ræða að sinni í tilefni þessa merka áfanga en stefnt er að því að minnast hans um leið og færi gefst á vormánuðum eða þegar takmörkunum á heimsóknum verður aflétt vegna Covid-19.

Að sögn Björns Bjarka Þorsteinssonar framkvæmdastjóra gengur lífið sinn vanagang í Brákarhlíð þrátt fyrir minni gestakomur en alla jafnan inn á heimilið. „Fimmtudaginn 21. janúar síðastliðinn fengu heimilismenn seinni bólusetningu vegna Covid-19 og er talið að sjö til tíu dögum seinna hafi bóluefnið náð fullri virkni. Áfram verða þó takmarkanir varðandi heimsóknir inn á heimilið. Í byrjun febrúar verður staðan endurmetin heildstætt á landinu varðandi möguleg næstu skref í heimsóknartakmörkunum inn á hjúkrunarheimilin í samstarfi sóttvarnaryfirvalda og hjúkrunarheimilanna,“ segir Björn Bjarki.

Þessi mynd var tekin stuttu eftir vígslu hússins í janúarlok 1971.

Líkar þetta

Fleiri fréttir