Systurnar Guðrún St. og Bjargey Anna Guðbrandsdætur standa að stofnun Hinsegin Vesturlands. Ljósm. aðsend.

Félagið Hinsegin Vesturland verður stofnað 11. febrúar

Systurnar Guðrún St. og Bjargey Anna Guðbrandsdætur standa að stofnun félagsins Hinsegin Vesturland. Stofnfundur verður fimmtudaginn 11. febrúar og verður streymt á netinu. Guðrún og Bjargey fengu á síðasta ári styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands fyrir verkefnið Hinsegin Borgarbyggð og ætluðu þær að halda hinseginhátíð í Borgarnesi. Vegna Covid-19 var hátíðinni frestað en þær systur stefna á að halda hana síðar á þessu ári. Markmið þeirra var þó alltaf að stofna félag fyrir hinsegin fólk á Vesturlandi samhliða því að halda hátíð. „Okkur fannst þörf á svona félagi fyrir þá sem eru hinsegin að sækja stuðning og leita hjálpar,“ segir Guðrún í samtali við blaðamann.

Hinsegin Vesturland verður hagsmunafélag að Samtökunum 78 og ætlunin er að félagið standi fyrir fræðslu bæði fyrir hinsegin fólk og aðra sem vilja fræðast og sýna stuðning. „Okkur langar að auka fræðslu hér á Vesturlandi og myndum vilja bjóða upp á fræðslu í skólum og jafnvel vera í samstarfi við nemendafélög og foreldrafélög á Vesturlandi. Sjálf er ég kennari í Grunnskólanum í Borgarnesi og ég hef, bæði í gegnum reynslu og námið mitt, kynnt mér vel málefni sem tengjast hinsegin fólki og sérstaklega börnum. Það er oft erfiðara að vera hinsegin í litlum samfélögum og því þykir okkur mikilvægt að auka sýnileika úti á landi með stofnun svona félags,“ segir Guðrún. „Sjálf er ég hinsegin og ég fann það bæði þegar ég ólst upp og svo þegar ég flutti aftur út á land, hvað það er lítill sýnileiki hinsegin fólks úti á landi,“ segir hún en sjálf ólst Guðrún upp á Mýrunum. „Það er erfitt að alast upp úti á landi þar sem maður var meira einn í heiminum sem hinsegin manneskja og mig langar að gera það sem ég get svo krökkum í dag líði betur en mér leið. Ég vil líka að þau þurfi ekki að sækja stuðning á höfuðborgarsvæðið heldur geti fengið hann í sinni heimabyggð,“ bætir hún við.

Guðrún tekur fram að félagið er ætlað öllum á Vesturlandi sem eru hinsegin, aðstandendum og velunnurum. Þó félagið sé stofnað í Borgarnesi hvetur hún alla sem vilja vera með af Snæfellsnesi, Dölum eða Akranesi að fylgjast með stofnfundinum og vera með í félaginu. Hægt er að fylgjast með félaginu á Facebook síðunni Hinsegin Vesturland.

Líkar þetta

Fleiri fréttir