Reglugerð undirrituð um veiðar á loðnu

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun grein fyrir því að hann hefði í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar undirritað reglugerð um veiðar á loðnu. Eftir mælingar á loðnustofninum í síðustu viku veitti Hafrannsóknastofnun ráðgjöf um veiðar á allt að 61.000 tonnum af loðnu á vertíðinni 2020/2021. Er það aukning um 39.200 frá fyrri ráðgjöf.

Þá gerði ráðherra einnig grein fyrir því að rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefði farið af stað til mælinga síðastliðinn sunnudag. Í dag fara þrjú skip frá útgerðum loðnuskipa til loðnuleitar og því munu samtals fjögur skip sinna mælingunum næstu daga. Auk þess eru tvö loðnuskip til viðbótar tilbúin að koma að verkefninu ef þörf verður á.

Veðurspá næstu daga, auk spár um dreifingu hafíss úti fyrir Vestfjörðum, gefur vonir um að það takist að fara yfir rannsóknasvæðið og að mæla stofninn að nýju á næstu dögum. Verður áhersla lögð á svæðið úti fyrir norðanverðum Austfjörðum, fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum en ekki hefur tekist að kanna þau svæði síðustu vikur sökum óveðurs og hafíss úti fyrir Vestfjörðum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir