Nýjar reglur um vindorkuver í samráðsgátt stjórnvalda

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sett tillögu að breytingum á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun til kynningar í samráðsgátt sjórnvalda. Eru tillögurnar unnar upp úr skýrslu starfshóps þrigga ráðuneyta. Vindorkan er auðlind sem takmarkast nær eingöngu við landssvæði sem hægt er að nýta undir slík mannvirki því vindur er nærri ótakmörkuð auðlind, ólíkt vatnsorku og jarðvarma. Greint hefur verið á um hvort vindorka heyri undir rammaáætlun. Í frumvarpinu er kveðið á um að vindorkukostir 10 MW og stærri vindmylla heyri undir rammaáætlun en að málsmeðferð verði önnur en um vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir. Gera má ráð fyrir að þessi breyting á verndar- og orkunýtingaráætlun, verði hún samþykkt, muni skýra stöðu fjölmargra virkjanakosta vindorku sem unnið er að víða um landið. Meðal annars eru hugmyndir um a.m.k. fjóra slíka vindorkugarða um vestanvert landið; ein í uppsveitum Borgarfjarðar, tvær í Dölum og ein í Reykhólasveit.

Flokkaskipting

Í skýrslu starfshópsins var horf til bæði Noregs og Skotlands þar sem ákveðið var að setja sérstakan ramma um nýtingu vindorku, sem er til þess fallin að skapa skýrleika og gagnsæi um nýtingu og uppbyggingu vindorku og er slíkur fyrirsjáanleiki ekki síður talinn mikilvægur hér á landi. Starfshópurinn taldi farsælla að taka mið af þeirri aðferð sem Skotar hafa beitt og aðlaga hana íslenskum aðstæðum. Sú aðferð byggir á að setja skýr viðmið og leiðbeiningar út frá tiltekinni flokkun lands og náttúru sem notuð verða til grundvallar við staðsetingu vindorkuvera. Lagt er til að landinu verði skipt upp í þrjá flokka með tilliti til vindorku. Í fyrsta lagi verði tilteknir landslagsflokkar með ákveðna skilgreinda eiginleika, t.d. út frá náttúruvernd eða búsvæðum dýra eða annarrar sérstöðu ekki teknir til greina til vindorkunýtingar. Í öðru lagi væri hægt að skilgreina að tilteknir aðrir landslagsflokkar með tilteknum öðrum eiginleikum gætu komið til greina undir slíka starfsemi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í þriðja lagi væru það landssvæði sem eru þess eðlis að tilheyra ekki hinum flokkunum tveimur og þar væri heimilt að byggja upp vindorkuver.

Forðast stórfelda uppbyggingu á verndarsvæðum

Skiptar skoðanir kunna að vera á því undir hvaða flokk hvert landssvæði skuli falla. Hér á landi hafa flest svæði sem þykir þörf á að vernda með tillit til náttúrufars, landslags eða dýralífs verið skilgreind með tilteknum hætti af hálfu hins opinbera, t.d. sem þjóðgarðar eða friðlýst svæði og njóta því verndar. Gera má ráð fyrir að almennur skilningur sé á að æskilegt sé að forðast stórfellda uppbyggingu vindorkuvera eða annars konar uppbyggingu á slíkum svæðum. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að horft var til slíkra skilgreindra svæða sem ákveðins útgangspunktar er varðar lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.

„Með því er engan veginn verið að halda því fram að svæði sem ekki tilheyri þessum flokkum landssvæða geti ekki verið viðkvæm fyrir slíkri uppbyggingu. Í tillögunum er hins vegar byggt á því að við meðferð mála skv. rammaáætlun verði einungis horft til þess að vernda þau svæði landsins sem sérstaklega verða skilgreind með tilteknum hætti. Hinn almenni rammi íslenskra laga um uppbyggingu atvinnustarfsemi gildi hins vegar eftir sem áður um slíka uppbyggingu á öðrum svæðum að fengnu mati á umhverfisáhrifum og öðrum kröfum laga,“ segir í skýrslunni.

Ferli umsókna

Virkjanakostir vindmyllugarða verða ekki flokkaðir í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk heldur verður aðeins litið til staðsetningar samkvæmd fyrirframgefinni skilgreiningu. Á landsvæði í flokki eitt, þar sem ekki verður heimilt að byggja vindorkuver, verði umsóknum strax vísað frá. Á svæðum í flokki tvö, þar sem svæðið getur verið viðkvæmt til uppbyggingar vindorkuvera, skal verkefnisstjórn meta virkjanakostinn út frá fyrirhugaðri staðsetningu. Telji hún að ef heimila eigi virkjunarkostinn skuli senda umsögnina til ráðherra til samþykktar eða synjunar. Sé falast eftir því að virkja utan svæða í flokki eitt eða tvö þarf að fá staðfestingu frá verkefnisstjórn rammaáætlunar að svo megi gera. Þá tekur við skipulagsferli á vegum sveitarfélagsins og mat á umhverfisáhrifum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir