Skortur er á dagforeldrum á Akranesi

Akraneskaupstaður auglýsti nýverið eftir dagforeldrum til starfa í bæjarfélaginu. Að sögn Valgerðar Janusdóttur, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, hefur skortur á dagforeldrum aðallega gert vart við sig þegar líða fer á veturinn. Dagforeldrar hefja störf á haustin í flestum tilfellum með nýjan hóp barna og fylla þá sín pláss eins og kostur er. Þegar líða fer á veturinn verður til nýr hópur af börnum sem þarf pláss hjá dagforeldrum. Til þess að mæta þörfum þessa hóps þurfa starfandi dagforeldrar að halda eftir lausum plássum sem þýðir tekjuskerðingu fyrir þá eða nýir dagforeldrar koma inn á markaðinn. Nú er svo komið eftirspurnin eftir plássum hjá dagforeldrum er meiri en framboðið. Auk þeirrar skýringar sem nefnd var hér að ofan getur skýringin verið fjölgun íbúa í bænum.

Í auglýsingunni frá bænum segir m.a. að dagforeldrar starfi eftir reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum. Dagforeldrar eru sjálfstæðir verktakar en Akraneskaupstaður hefur umsjón og eftirlit með starfsemi þeirra. Til að fá starfsleyfi til daggæslu í heimahúsum þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Leyfilegur barnafjöldi hjá dagforeldri er allt að fjórum börnum samtímis fyrsta árið. Að því loknu er heimilt að veita leyfi fyrir einu barni til viðbótar. Þó þannig að eigi skulu að jafnaði vera á heimilinu fleiri en tvö börn undir eins árs aldri. Skörun á tímum barna í daggæslu er ekki heimilaður nema milli klukkan 12 og 13 á daginn. Þar sem tveir dagforeldrar starfa saman er leyfilegt að vera með allt að tíu börn í einu þ.e. fimm börn fyrir hvort dagforeldri.

Réttindanámskeið fyrir verðandi dagforeldra hefur verið haldið af Námsflokkum Hafnarfjarðar og niðurgreiðir Akraneskaupstaður hluta af námsgjaldi. Umsókn um leyfi til daggæslu barna í heimahúsi og frekari upplýsingar er að finna á vef Akraneskaupstaðar. Frekari upplýsingar veitir verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði Akraneskaupstaðar í síma 433-1000 en einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið skolifristund@akranes.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir