Íbúakynning um möguleika í sameiningu sveitarfélaga

Næstkomandi fimmtudag, 28. janúar, verður kynning meðal íbúa í Dalabyggð á valkostagreiningu vegna sameiningar sveitarfélaga. Sveitarfélagið samdi síðastliðið sumar við RR ráðgjöf um greiningu valkosta sveitarfélagsins vegna mögulegrar sameiningar. „RR ráðgjöf er ráðgjafafyrirtæki með sérþekkingu á stjórnsýslu, rekstri og málefnum sveitarfélaga. Róbert Ragnarsson hefur leitt greiningarvinnuna og mun flytja kynninguna og stýra umræðum ásamt Freyju Sigurgeirsdóttur,“ segir í frétt á vef Dalabyggðar. „Á kynningunni verður farið yfir stöðu sveitarfélagsins Dalabyggðar, rætt hvort sveitarfélagið eigi að fara í sameiningarviðræður og lagt mat á hvaða sameiningarkostir sé séu til staðar.“

Hægt verður að fylgjast með íbúakynningunni á Youtube rás Dalabyggðar undir nafninu „Dalabyggð-TV“ þar sem hægt verður að senda inn spurningar, ábendingar og athugasemdir á meðan kynningunni stendur og það efni verður notað við frekari greiningu. Nokkur sæti verða í boði fyrir þá sem vilja mæta á kynninguna í eigin persónu en þá þarf að skrá sig hjá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur á netfangið johanna@dalir.is eða í síma 430-4700. Grímuskylda fyrir alla sem mæta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir