Hópur skiptinema mættur á Bifröst

Þrátt fyrir heimsfaraldur eru nú þrettán skiptistúdentar frá sjö löndum að koma sér fyrir á Bifröst. Um mánaðamótin febrúar-mars bætast við tveir nemar sem verða í skólanum í seinni lotu haustannar. Nemarnir nú koma frá Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Rúmeníu, Ítalíu, Tékklandi og Bandaríkjunum og koma sér fyrir í þremur námsmannaíbúðum í háskólaþorpinu.

„Segja má að nemarnir hafi vaðið eld og brennistein til þess að komast í sveitasæluna í Borgarfirði. Fólkið hefur að sjálfsögðu allt verið í sóttkví með tilheyrandi aukakostnaði, auk þess sem það lenti í ýmiskonar hremmingum á leið sinni hingað til lands, svo sem niðurfellingu á flugi. En stúdentarnir létu ekki stoppa sig og nú eru þau komin, kát og glöð, og sest við nám meðal annars í forystu og stjórnun, hagvexti og þróun og alþjóðahagfræði. Skiptistúdentarnir munu dvelja á Bifröst fram í maí og vonast til að bólusetningar gangi nægilega vel til þess að heimferð þeirra verði með einfaldara sniði en ferð þeirra hingað til lands,“ segir í frétt frá skólanum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir