Miklar rakaskemmdir í Ráðhúsi Borgarbyggðar

Byggðarráð Borgarbyggðar fjallaði á fundi sínum í gær um rakavandamál í Ráðhúsinu við Borgarbraut 14 í Borgarnesi. Fram kemur í fundargerð að hafnar séu framkvæmdir við húsið og til staðar séu nú fyllri upplýsingar en áður um umfang viðhalds á því. Byggðarráð samþykkti að fela sveitarstjóra að finna tímabundið húsnæði fyrir hluta eða alla starfsemi ráðhússins þar sem ástand þess vegna rakavandamála sé verra en búist var við, eftir forskoðun Eflu á hluta fasteignarinnar. „Byggðarráð leggur jafnframt til að ljúka við úttekt á ráðhúsi Borgarbyggðar og að farið verði í viðeigandi aðgerðir í kjölfarið. Málið verður lagt aftur fyrir næsta fund byggðarráðs.“

Guðveig Eyglóardóttir, fulltrúi Framsóknarflokks og minnihlutans í byggðarráði, lagði fram bókun þar sem hún segir ljóst af lýsingum að dæma að húsnæði Ráðhúss Borgarbyggðar sé illa farið af raka, myglu og skemmdum af þeim sökum. „Undirrituð telur óforsvaranlegt að sveitarfélagið leggi í kostnað við viðgerðir á húsinu og leggur til að unnið verði að því að húsið verði rifið eða selt í því ástandi sem húsið er. Brýnt er að koma starfsemi Ráðhússins í nýtt og hentugra húsnæði til framtíðar.“

Samkvæmt heimildum Skessuhorns hefur sveitarfélaginu boðist til kaups hús Arionbanka við Digranesgötu og hefur umræða um flutning starfsemi Ráðhúss þangað átt sér stað. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin í sveitarstjórn um slíkt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir