
Uppsetning á frisbígolfvelli í Grundarfirði
Félagarnir Hafsteinn Mar Sigurbjörnsson og Loftur Árni Björgvinsson eru miklir áhugamenn um folf en það er skemmtileg stytting á orðinu frisbígolf. Folf er svipað og golf nema að leikmenn kasta svifdiskum í stað þess að slá golfkúlum.
Árið 2014 fóru þeir Haddi og Loftur af stað með hugmynd um að setja upp frisbígolfvöll í Grundarfirði. Þeir létu setja heimasmíðaða folfkörfu í Paimpolgarðinn þar sem fólk gat kastað svifdiskum í mark og spilað á eina holu. Eftir það lagðist málið í smá dvala þar til það komst aftur í umræðuna snemma á síðasta ári. Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grundarfjarðarbæjar tók frumkvæðið og kallaði þá félaga til fundar í byrjun mars síðastliðnum. Þar fór málið af stað og þeir fóru í að safna styrkjum og huga að staðsetningu fyrir níu holu folfvöll í Grundarfirði. Nú er kominn góður skriður á málið og starfsmenn áhaldahússins eru búnir að setja upp 6 holur nálægt tjaldsvæði bæjarins. Haukur Árnason frá Discogolf kom og hitti þá Loft og Hadda í júní síðastliðnum og þar var farið yfir staðsetningu og útfærslu á vellinum. Áætlað er að völlurinn verði fullbúinn með 9 holur næsta vor. Það eru Ragnar og Ásgeir, GG-Lagnir, Guðmundur Runólfsson, Djúpiklettur og Rúnar Magnússon sem styrkja verkefnið ásamt Grundarfjarðarbæ. Það er því ljóst að þetta verður kærkomin viðbót við þá afþreyingu sem hægt er að sækja hér í Grundarfirði og auka þjónustu við íbúa og gesti.