Góð viðbrögð við væntanlegu streymisþorrablóti Skagamanna

Þorrablót Skagamanna verður laugardaginn 23. janúar, á öðrum degi Þorra. Að þessu sinni verður þorrablótið með óhefðbundnu sniði og verður streymt á netinu. Club 71, sem samanstendur af Skagamönnum sem flestir eru fæddir árið 1971, hefur frá upphafi 2011 staðið fyrir þorrablótinu. Nú hefur Sjötíu og níu menningarfélagið, árgangur 1979, tekið við verkefninu og fer það þannig fram að gestir kaupa miða á tix.is og fá þá hlekk á streymið og leiðbeiningar um hvernig á að snúa sér til þess að njóta blótsins sem best.

Þorrablótið verður síðan sent út beint frá Bárunni Brugghúsi og gestir njóta í sinni þorrablótskúlu hvar sem þeir kjósa að vera. Streymið hefst kl. 18:30 með fyrirpartíi og síðan tekur við dagskrá sem stendur fram á nótt.

Blaðamaður Skessuhorns náði tali af Guðrúnu Lind Gísladóttur sem sagðist mjög ánægð með hvernig salan hafi farið af stað. „Við rennum blint í sjóinn og vitum í raun ekki hversu margir miðar munu seljast. Við hvetjum fólk til þess að kaupa streymi þó það sé ekki að horfa heima hjá sér því allt er þetta gert til styrktar góðgerða- og íþróttamálum á Akranesi,“ sagði Guðrún. „Við höfum einnig verið mjög dugleg við að safna styrkjum og áheitum frá fyrirtækjum í bænum.

Þó að við reynum að halda í hefðirnar er ljóst að þetta nýja form á blótinu setur okkur skorður. Undanfarið höfum við heimsótt fyrirtæki í bænum og tekið upp kveðjur og það sem ég hef séð hittir vel í mark. Happdrættið og Skagaskaupið, annállinn, verða á sínum stað. Árgangur 1980 sér um Skagaskaupið. Nýr liður er ávarp Skagamanns sem opnar blótið og setur það en hver það er verður haldið leyndu fram að blótinu. Ingó Veðurguð verður með gítarstemningu í lok blótsins og Herra Hnetusmjör mun sprengja upp blótið,“ segir Guðrún. „Við erum líka að búa til sjónvarpsefni sem hefur ekki verið gert áður varðandi blótið.“

Guðrún benti á að ef fólk lendir í erfiðleikum með að tengjast þá verður í boði mjög öflug tækniþjónusta til þess að aðstoða við tæknimál. Enginn mun missa af neinu en tækniþjónustan verður kynnt nánar á Facebook síðu viðburðarins.

Aðstandendur þorrablótsins vekja athygli á því að þeir sem kaupa miða á þorrablótið fyrir dagslok í dag, fimmtudag, fara í pott og geta unnið til vinninga í happdrætti sem fer fram á þorrablótinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir