Nýtt fjölbýlishús við Krossvelli í Hvalfjarðarsveit. Ljósm. Ás.

Fjölbýlishús risið við Krossvelli í Hvalfjarðarsveit

Byggingarfélagið X ehf. byggir um þessar mundir fjölbýlishús við Krossvelli í Hvalfjarðarsveit. Er þetta jafnframt fyrsta fjölbýlishúsið í sveitarfélaginu. Um er að ræða tveggja hæða fjölbýlishús með sex íbúðum alls og fylgir bílskúr öllum íbúðunum og er innangengt í bílskúra úr íbúðum jarðhæðar.

Í lýsingu á íbúðunum segir m.a: „Við hönnun hússins var lögð áhersla á að allar íbúðir njóti útsýnis og sólar, meðal annars með góðum svölum. Innréttingar verða frá IKEA. Einnig eru í húsinu tvær sameiginlegar hjólageymslur. Húsið er steinsteypt á hefðbundinn hátt, einangrað og klætt að utan með litaðri álbáruklæðningu og sléttu áli. Allt burðarvirki; sökklar, botnplata, útveggir og gólfplötur er staðsteypt, járnbent steinsteypa.“

Í samtali við Aron Frey Eiríksson, löggildan fasteignasala hjá Fasteignasölunni Ási, sem hefur íbúðirnar til sölumeðferðar, sagði hann að verkefnið færi vel af stað og að þegar sé ein íbúð seld en íbúðirnar eru svo gott sem nýkomnar í formlegt söluferli. „Allar íbúðirnar hafa sína kosti eins og sérinngang, sér bílskúr, glæsilegt útsýni til sjávar og einnig fylgja óvenju stórar verandir með íbúðum á jarðhæð eða allt að 75,2 fermetrar. Algengt er að sér verandir séu um 10-20 fermetrar í fjölbýlishúsum. Þarna eru íbúðir sem henta stórum hópi fólks. Til dæmis þeim sem vilja minnka við sig án þess að missa bílskúrinn og einnig eru þær kjörnar fyrir litlar fjölskyldur, hvort sem verið er að stækka eða minnka við sig. Íbúðirnar verða tilbúnar til afhendingar í apríl/maí á þessu ári og ég hvet alla áhugasama að hafa samband við sölumenn verkefnisins og bóka tíma fyrir skoðun, sjón er sögu ríkari.“ sagði Aron.

„Punkturinn yfir i-ið í þessu verkefni er svo að þarna er um að ræða öflugan verktaka sem hefur getið sér gott orð í byggingarbransanum undanfarna áratugi en við hjá Ás fasteignasölu höfum notið þeirra forréttinda að selja fyrir Jónas hjá Byggingarfélaginu X í mörg ár og átt með honum fyrirmyndar samstarf,” sagði Aron að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir