Áhrif atvinnuleysis vega stærst í minnstu sveitarfélögunum

Í síðustu viku kom út nýr Hagvísir Vesturlands og ber hann titilinn „Fjármál sveitarfélaga: Atvinnuleysi og tekjur.“ Viðfangsefni þessa Hagvísis er að leita vísbendinga fyrir áhrifum atvinnuleysis á tekjur sveitarfélaga á Vesturlandi. „Núverandi kreppa var hvatinn að þessari vinnu. Hvert og eitt sveitarfélag á Vesturlandi var skoðað sérstaklega og stuðst við tölur Sambands íslenskra sveitarfélaga aftur í tímann. Þar munaði mest um reynsluna í kringum Bankahrunið 2008. Erfitt reyndist að yfirfæra þá reynslu yfir á núverandi kreppu til þess að tölusetja áhrifin með áreiðanlegum hætti. Aðstæður eru það ólíkar,“ segir Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV og höfundur skýrslunnar. „Þó kom fram rökrétt munstur. Í fyrsta lagi er hætt við að áhrifin til skemmri tíma verði vægari en til lengri tíma litið vegna þess að í mörgum sveitarfélögum flytja menn brott ef þeir verða atvinnulausir og það gerist ekki strax en magnar upp neikvæðu áhrif atvinnuleysis á tekjur sveitarfélaga. Líkurnar á því eru mestar í fámennari sveitarfélögum og þeim sem eru langt frá stærstu mörkuðunum eins og höfuðborgarsvæðinu. Að þessum sökum er hætt við að áhrif atvinnuleysis á tekjur sveitarfélaga verði hlutfallslega mest í slíkum sveitarfélögum og það renndi tölfræðilega greiningin stoðum undir,“ segir Vífill.

Hagvísinn má finna í heild hér

Líkar þetta

Fleiri fréttir