Hæsti einstaki styrkurinn rennur til endurreisnar verslunar á Reykhólum. Ljósm. mm.

Styrkja verslun á strjálbýlustu svæðum

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um þrjá verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar. Að þessu sinni var 12 milljónum króna úthlutað til verslunar í strjálbýli fyrir árið 2021. Samningar vegna styrkjanna verða undirritaðir á næstu dögum. Verkefnin sem hljóta styrk eru Hríseyjarbúðin, Kauptún Vopnafirði og verslun á Reykhólum. Til Reykhóla rennur hæsti styrkurinn, krónur 5,8 milljónir, til stofnkostnaður vegna opnunar og reksturs verslunar. Þar hefur eins og kunnugt er ekki verið verslun síðan Hólabúðinni var lokað síðasta haust.

Markmið með framlögunum er að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar. Framlögin eiga að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, til dæmis með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir